Framundan er síðasti leikur KF þetta sumarið og er hægt að fullyrða að þetta er risaleikur þar sem KF er frímerki frá því að tryggja sig upp í 2. deild.
Sumarið hjá KF hefur verið brokkgengt og tímabilið fór ekki vel af stað.
Í fyrstu umferð tapaði KF fyrir KFG en i öðrum leik liðsins komu fyrstu stig sumarsins í hús eftir sigur á heimavelli gegn Augnablik, 2 – 0. Næstu þrír leikir töpuðust gegn Einherja, Sindra og Vængjum Júpiters.
Í sjöttu umferð fékk KF Ægi frá Þorlákshöfn í heimsókn og lögðu þá 2 – 0. Næst heimsótti KF lið KH og tapaðist sá leikur 3 – 1. Í 8. umferð kom lið KV á Ólafjarðarvöll og KF sigraði þá 2 – 0 . Dalvík/Reynir voru næsta lið og skildu liðin jöfn í markalausum leik á Dalvíkurvelli.
Laugardaginn 14. júlí kom lið KFG í heimsókn í Fjallabyggð og voru þeir gjörsigraðir af KF sem rúllaði yfir þá 6 – 2.
Í kjölfarið kom síðan tap á útivelli gegn Augnablik 4 – 3. 26. júlí gyrtu KF menn sig heldur betur í brók og hófst fimm leikja sigurhrina gegn Einherja, Sindra, Vængjum Júpíters, Ægi og KH og eftir þessa leiki sat KF í öðru sæti deildarinnar með aðeins tvo leiki eftir.
KV var næsti andstæðingur og því miður tapaðist sá leikur 2 – 0 og datt KF niður í þriðja sæti deildarinnar. KF fer inn í síðasta leik tímabilsins í þriðja sæti og þarf að treysta á úrslit úr öðrum leikjum til að tryggja sig upp um deild, og að sjálfsögðu að sigra sinn síðasta leik.
Andstæðingar KF eru nágrannarnir úr Dalvík/Reynir sem er nú þegar búnir að tryggja sig upp og mun spila í 2. deild á næsta tímabili.
Til þess að fylgja þeim upp þarf KF að sigra þá á laugardaginn á Ólafsfjarðarvelli, en þar hefur KF ekki tapað síðan 15. júní og hefur leikið 6 leiki í röð án þess að tapa stigum og er með markatöluna 19 – 5 í þessum 6 leikjum!
En það er því miður ekki nóg að sigra í þessum leik, því KF þarf að treysta á að KFG tapi stigum á sama tíma. Geri KF jafntefli við Dalvík/Reyni þarf KFG að tapa sínum leik með allavega þremur mörkum. KFG leikur á heimavelli gegn KV en fyrri leikur liðana fór 2 – 3 fyrir KFG.
Það þarf því ekkert að fjölyrða um það hversu mikilvægur leikur þetta er og hversu mikilvægt er að Fjallbyggingar fjölmenni á Ólafsfjarðarvöll og hvetji strákana okkar til sigurs! Allir leikir verða spilaðir á sama tíma og hefjast kl. 14:00 á laugardaginn.
ÁFRAM KF
Umfjöllun í boði Andra Hrannars
Myndir: Guðný Ágústsdóttir