Á vefmiðlinum Lifðu núna birtist skemmtilegt og áhugavert viðtal við Siglfirðinginn Róbert Guðfinnsson, sem lesa má hér að neðan.

„Róbert er gæfumaður” sagði heimamaður aðspurður um bakgrunn Róberts Guðfinnssonar athafnamanns. Róbert býr á Siglufirði þar sem hann er fæddur og uppalinn og margur skyldi halda að gæfa hans hefði komið til af því Róbert hafi verið fæddur með silfurskeið í munni, en svo var ekki.

Þjóðsagan segir nefnilega að gangi maður fram á látinn mann boði það gæfu. Siglfirðingurinn Örlygur Kristfinnsson segir frá því að Róbert, þá 11 ára gamall, hafi verið á ferð einn uppi í fjalli þegar hann gekk fram á látinn mann. „Þetta var Vignir hringjari sem var að reka kindur sínar til sumarbeitar upp í fjall þegar hann ætlaði að leggja sig í laut og hvílast,” segir Örlygur. „Þar sofnaði hann svefninum langa og þarna gekk Róbert fram á hann. Samkvæmt þjóðtrúnni er það mikið gæfumerki fyrir þann sem finnur látinn mann. Auðvitað spurðist strax um bæinn að Vignir hringjari hefði fundist látinn uppi í fjalli og Robbi Guðfinns hefði fundið hann. Robbi var þá spurður hvort hann hefði ekki fengið fundarlaun.

Það var ekkert óeðlilegt að gert væri svolítið grín að þessu þótt auðvitað hafi verið sorglegt að maðurinn hafi látist en þarna átti gamall, heilsuveill maður í hlut og ekki ástæða til að gera mikið úr því. En ef eitthvað er að marka þjóðtrúna þá hefur það sannarlega ræst með Róbert því hann er mikill gæfumaður,” segir Örlygur en bætir við að auðvitað sé Róbert umdeildur maður en það skilji allir Siglfirðingar hversu gríðarlega dýrmætur hann er fyrir heimabæ þeirra.

Forvitnin um fortíðina

Róbert er fæddur 1957 og segist vera ástandsbarn. Kvæntur Steinunni R Árnadóttur til fjörtíu ára. Faðir fjögurra stúlkna með sex barnabörn. Móðir hans hafi hitt bandarískan mann sem fór svo sína leið aftur heim og Róbert ólst upp hjá móður sinni og Guðfinni sem hún giftist síðar. Róbert segir að Guðfinnur hafi gengið sér fullkomlega í föður stað en var svo orðinn fertugur þegar forvitnin um fortíðina vaknaði.

Kominn af Húgenottum

Róbert kynntist föður sínum um fertugt og um leið þremur systrum og einum bróður. Faðir hans er nú látinn en forfeður hans voru franskir Húgenottar. Þeir hröktust undan kaþólikkunum um 1660 og ættfaðir Róberts flutti fyrst til Bretlands og síðar til Bandaríkjanna. Forfeður hans voru margir hverjir listrænir og þaðan hefur Róbert eflaust fengið hæfileika sem hafa nýst honum í lífinu.
Húgenottarnir voru líka framarlega í viðskiptalífinu í Frakklandi og eru enn. Róbert nefnir sem dæmi fjarskyldan ættingja, Damon Runyon, sem var rithöfundur og skrifaði margar frægar sögur, meðal annars söguna Guys and dolls 1931 sem frægur Broadwaysöngleikur var settur upp eftir.
Damon Runyon var líka þekktur fyrir að hafa stutt við krabbameinsrannsóknir með því að styðja og styrkja unga vísindamenn við rannsóknir sínar en stofnun hans „The Damon Runyon Cancer Research Foundation” er enn fræg í vísindaheiminum í dag.

Var hættur að skilja íslenskt viðskiptalíf

Róbert bjó á Siglufirði til 1998 en hafði tekið að sér að stýra sjávarútvegsfyrirtækinu Þormóði ramma 1985. 1998 tók hann við sem stjórnarformaður Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og upp úr því stundaði hann alþjóðaviðskipti, bæði hér heima og erlendis. En 2005 segist Róbert hafa verið alveg hættur að skilja upp eða niður í íslensku viðskiptalífi. „Ég var orðinn mjög innarlega í viðskiptalífinu hér heima en þarna stóð ég á gati og þótti betra að láta aðra um. Þarna voru hlutirnir komnir út fyrir það svið sem þekking mín og geta lágu og þá vildi ég færa mig um set. Ég vissi að tíma mínum og getu væri betur borgið í einhverju sem væri meira tengt frumframleiðslu. Þess vegna fór ég í fiskeldi og að byggja upp uppsjávarfyrirtæki, fiskverkun og skyld verkefni. Það gekk mjög vel og ég horfði á Ísland úr fjarlægð frá heimili mínu í Phoenix Arizona.”

Lesa nánar: HÉR