Siglfirðingurinn Gunnlaugur Úlfar Gunnlaugsson sonur Þuríðar Andrésdóttur og Gunnlaugs Jónssonar greindist með krabbamein í lok árs 2017. Hann er núna í lyfjakúr til að halda meininu í skefjum. Gunnlaugur Úlfar, jafnan er nefndur Úlli, er búsettur í Grindavík þar sem hann á og rekur öflugt fyrirtæki, Lagnaþjónustu Suðurnesja ásamt Rúnari Helgasyni.
Eins og fylgir jafnan strangri krabbameinsmeðferð þá hefur Úlfar nýverið misst hárið. Í kjölfarið hafði sonur Úlla, Þorfinnur Gunnlaugsson sem vinnur hjá föður sínum, samband við vinnufélaga sína og lagði það til að þeir sýndu Úlla stuðning í verki. Tóku þeir þá til óspilltra málanna og rökuðu af sér hárið allir sem einn. Var síðan hóað í Úlfar niður í vinnu og við blöstu þessir frábæru hárlausu vinnufélagar. Eins og Þorfinnur sagði á fb. síðu sinni “það sem ég elska þessa starfsmenn okkar og sýnir pabba vonandi að hann hefur risastórt stuðningsnet á bak við sig í gegnum þessa baráttu við krabbameinið”. Úlfar er giftur Kristínu Gísladóttur og eiga þau samanlagt fjögur börn og fjögur barnabörn. Fjölskyldan er einstaklega samhent og tekur veikindunum með miklu æðruleysi og er opinská um veikindin. Framundan hjá þeim er að Úlfar fer í 10 geislameðferðir á höfði og 6 sinnum í lyfjagjöf á næstu vikum. Úlfar er hress og kátur og lætur þetta ekkert stoppa sig í að njóta lífsins og ætla þau hjónin til Vestmannaeyja um næstu helgi á Lundaballið.
Frétt: Kristín Sigurjónsdóttir Mynd/ir: Gunnar Smári Helgason og í einkaeign