Rafmagnsleysi hefur verið víða um land vegna óveðursins og heilu byggðarlögin rafmagnslaus í mislangan tíma. Á Siglufirði stóð rafmagnsleysið yfir í um 15 klst. samfleytt, en rafmagn var sett á bæinn smá saman seinni part miðvikudags.
Meðan á rafmagnsleysinu stóð fóru fréttamenn Trölla.is á stúfana og tóku myndir víðs vegar um Siglufjörð.
Þar var nánast ekki hræða á ferðinni, hvergi ljós að sjá í neinum glugga og engin starfsemi í gangi í bænum. En víða voru kyrrstæðir bílar í gangi þar sem fólk var að hlaða símana til að vera í sambandi við umheiminn.
Sjúkrahús Siglufjarðar var eini staðurinn þar sem rafmagn var í notkun og var það knúið áfram af vararafstöð stofnunarinnar. Var það rómur manna að stöðugur straumur af heimsóknargestum hefðu komið í ilmandi kaffisopa.