Jón Möller

Jón Ragnar Sigurðsson er 22 ára, ungur og upprennandi tónlistamaður sem vert er að fylgjast með.

Hann er ættaður í báðar ættir frá Siglufirði en ólst upp í Kópavogi. Foreldrar hans eru Sólrún Helga Jónsdóttir (dóttir Elíngunnar Birgisdóttur og Jóns Þorsteinssonar) og Sigurðs Odds Sigurðssonar (sonur Rósu Björnsdóttur, systir Sveins og Hjalta Björnssona)

Jón Möller eins og hann kallar sig hefur alltaf haft mikinn áhuga á tónlist eins og flestir í hans fjölskyldu eins og hann segir sjálfur frá: “ömmur mínar eru/voru mikil skáld og sennilega koma hæfileikarnir þaðan. Mamma mín segir að ég var rétt um 8 ára gamall þegar að það kom lag á í útvarpinu og ég byrjaði að syngja yfir lagið og breyta textanum og melódíunni í mitt eigið og mamma segir að ég hafi spunnið upp nýjan texta á engri stund við lagið”.

Hann hefur lært smávegis á gítar og söng á námskeiðum, annars hefur allt sem hann kann og getur í dag komið með því að æfa sig heima, enda semur hann og mixar lögin sín sjálfur.

Þeir tónlistarmenn sem hafa haft mest áhrif á Jón Ragnar eru, Tory Lanez, Jimlian (danskur artisti), 2Pac og Michael Jackson.

Jón Möller hefur gefið út tvö lög á Spotify sem heita Senjoríta og Iphone.

Það er ljóst að þarna er á ferðinni áhugaverður listamaður sem spennandi verður að fylgjast með í framtíðinni. Hann verður kynntur í þættinum Tíu dropum á FM Trölla milli 13:00-15:00 í dag. FM Trölli hefur nú þegar sett lögin hans í spilun.

Myndir: aðsendar