Í kjölfar nýlegrar endurskoðunar á framtíðarsýn Háskólans á Hólum og stefnumótun fyrir árin 2021-2025 hefur háskólinn ráðið tvo nýja sviðsstjóra sem taka munu sæti í framkvæmdaráði skólans. Báðar stöðurnar eru nýjar í skipuriti háskólans og munu vinna sérstaklega með framtíðarsýn skólans um að vera þekkt sem framúrskarandi fjölþjóðlegt lærdómssamfélag. Sviðsstjórunum er einnig ætlað að styrkja innra starf skólans og tengsl við atvinnulíf og samfélag.  

Ólöf Ýrr Atladóttir hefur tekið við stöðu sviðsstjóra rannsókna, nýsköpunar og kennslu. Ólöf, sem er með meistaragráður í stofnerfðafræði fiska og opinberri stjórnsýslu, gegndi embætti ferðamálastjóra árin 2008-2017 en hefur síðan starfað að ferðaþjónustuverkefnum í Sádi-Arabíu. Ólöf er með fjölbreyttan bakgrunn á sviðum vísindarannsókna og ferðamála og hefur gegnt ýmsum trúnaðar- og stjórnunarstörfum fyrir hönd íslenskra stjórnvalda bæði innanlands og erlendis.  

Edda Matthíasdóttir hefur tekið við stöðu sviðsstjóra mannauðs, gæða og rekstrar. Edda er menntuð í stjórnunar- og viðskiptafræðum og hefur mikla reynslu af alþjóðlegum viðskiptum, samningsviðræðum og gæðastjórnun. Hún hefur einnig góða innsýn í tæknifræði og hefur unnið í fjölmörg ár við stjórnun framkvæmdaverkefna í olíu- og byggingaiðnaði. Edda hefur að mestu leyti starfað erlendis undanfarin 20 ár, en snýr nú aftur á heimaslóðir í Skagafirði. 

„Við erum afar ánægð með að hafa fengið svo öfluga leiðtoga með okkur í lið. Þær hafa báðar breiða reynslu á sínum sviðum og reynslu af störfum erlendis, sem við teljum vera mikinn styrk fyrir alþjóðlegt starf skólans. Við vorum einnig lánsöm að geta fengið þær til liðs við okkur á skömmum tíma og þær eru þegar farnar að setja sitt mark á starf háskólans“, segir Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor Háskólans á Hólum.  

Nánari upplýsingar veitir rektor Háskólans á Hólum, Erla Björk Örnólfsdóttir gegnum tölvupóst erlabjork@holar.is eða í síma 455 6300