Í gærkvöldi skruppu nokkrir Rótarýfélagar í Ólafsfirði til Siglufjarðar og litu á nýju félagsmiðstöðina; Neon eins og hún heitir, þar sem var opið kynningarkvöld.

Þeir komu reyndar færandi hendi, því klúbburinn hafði ákveðið fyrir nokkru að færa unglingunum stórt og glæsilegt sjónvarp sem var svo afhent formlega við smá athöfn.

Fulltrúar ungmenna í Fjallabyggð; Hanna Valdís Hólmarsdóttir og Víkingur Ólfjörð Daníelsson hófu athöfnina með að segja frá félagsmiðstöðinni.

Því næst tók Haukur Sigurðsson forseti til máls og sagði frá styrkjum og gjöfum rótarýfólks í samfélaginu. Afhenti því næst krökkunum risa sjónvarp, gjafabréf og fána klúbbsins.

Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri tók til máls og nefndi sérstaklega þátt Ríkeyjar Sigurbjörnsdóttur deildarstjóra fræðslu-frístunda og menningarmála við endurbyggingu á húsnæði stöðvarinnar. Sem er hin glæsilegasta eins og e.t.v. má sjá á myndunum sem fylgja.

Að lokum gæddu gestir sér á glæsilegum veitingum sem í boði voru.

Rótarýfólk vonar að gjöfin gleðji krakkana og komi að góðum notum í starfinu.

Heimild og myndir/KHG af facebooksíðu Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar