Vegna COVID-19 hafa bæði fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar nýtt sé fjarfundartækni í auknu mæli.

Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar nýtti sér fjarfunda-hugbúnað á fimmtudagskvöldið og hélt rafrænan rótarýfund í fyrsta sinn í sögu klúbbsins.

Eftir að samkomubannið hið fyrra, var sett á ákvað stjórn klúbbsins að gera fundahlé um óákveðinn tíma líkt og aðrir klúbbar og samtök í landinu. Fundurinn sem vera átti 19. mars var því felldur niður.

Farið er eftir kúnstarinnar reglum. Fundaráhöldin og dagskráin klár fyrir fjarfundinn.

En þar sem það eru yfirleitt mörg verkefni í gangi hjá klúbbnum og margt sem þarf að ræða var ákveðið að reyna að halda fjarfund. Það tókst býsna vel og mætti bróðurpartur félaga til fundarins, hver heima hjá sér með sinn síma eða sína tölvu og voru ýmis mál þar til umræðu og dagskrárhefðin að mestu haldin.

Óhætt er að segja að þessi “tilraun” hafi verið forvitnileg tilbreyting og bara stórskemmtileg, en kemur vitanlega ekki í staðinn fyrir hefðbundnu fundina sem vonandi hefjast aftur innan tíðar.

Næsti fundur verður með sama sniði þann 2. apríl og svo er stefnt á þriðja svona fundinn þann 16. apríl, eftir páskana.

Myndir birtar með leyfi.