Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar setti í vikunni upp nýja LED krossa í kirkjugarðinn í bænum.

Hér að neðan segir K. Haraldur Gunnlaugsson frá vinnu þeirra rótarýmanna við þessa skemmtilegu hefð klúbbsins.

Sjá fjölmargar myndir frá vinnu við uppsetningu krossana á facebooksíðu klúbbsins.

Tímamót í kirkjugarðinum – en þó ekki alveg.

“Tilgangur þessa innleggs er enn á ný að fjalla um ljósakrossana í kirkjugarðinum og segja þar með frá nýjustu tíðindum af ljósakrossum.

Sem eru þau að rótarýklúbburinn hannaði með rafmagnsvöruframleiðenda í Kína nýja gerð ljósakrossa á leiði; – LED krossa þar sem ljósið er í öllum krossinum, ekki bara í kring um peruna eins og á gömlu gerðinni sem hefur verið notuð hér hingað til.

Það eitt og sér væri frétt sem vert væri að fjalla um og þá ekki síður um fjármögnunina sem að miklu leiti er styrktar fé, frá nokkrum velunnurum í bænum og er tækifærið notað hér og þeim þakkað kærlega.

Von er á fleiri styrkjum annarsstaðar frá, en samt sem áður þarf klúbburinn að leggja fram töluvert fjármagn, enda er um stóra fjárfestingu að ræða, þá lang stærstu í sögu klúbbsins.

Rótarýfólk í Ólafsfirði eru að vonum ákafleg stolt af framtakinu, sem líklega telst einstakt hjá svona félagsskap.

En eftir að búið var að hanna krossana og ákveða ljósmagnið í þeim voru pöntuð 500 stk. og er styst frá því að segja að á ýmsu hefur gengið, en stærsta áfallið var þegar tengiliður okkar við Kínverjana; Sigursteinn Þórsson varð bráðkvaddur langt fyrir aldur fram.

Það gerðist á hönnunar tímabilinu þannig að það dróst að koma framleiðslunni af stað.

Björgvin bróðir Sigursteins var svo vingjarnlegur að taka við málinu og með hans hjálp kláraðist það, eða þannig.

Búið er að framleiða alla 500 krossana, en hluti þeirra er á leiðinni og var vitað að þeir næðu ekki fyrir þessi jól.

Þar sem ekki voru til nógu margir „gamlir krossar“ til að setja upp fyrir þessi jól, var ákveðið að leysa málið með því að fá ríflega 100 krossa með flugi frá Kína og eins og fólk getur ímyndað sér kostaði það skildinginn.

Stærstur hluti þessara rúmlega 100 krossa hafa verið settir upp í suður hluta garðsins við Aðalgötu þar sem er verið að jarðsetja nú, á nokkur barnaleiði og svo í Kvíabekkjarkirkjugarði.

Það verða því tvær gerðir af krossum þessi jólin, en þau næstu verður allt klárt, þar sem krossarnir eru ný farnir frá Kína og verða komnir í janúar eða febrúar. Biðjum við fólk að sýna þessu skilning.

En að öðru leiti er búið að vera erfitt að koma krossunum niður og telja menn að aldrei í sögunni hafi þurft að moka annað eins magn af snjó og nú.

Verktakafyrirtækið Smárinn ehf. hljóp undir bagga með klúbbnum og mokaði stígana endurgjaldslaust, en klúbbfélagar og velunnarar hafa handmokað þau ósköp sem eftir voru.

Ljósakrossanefndin, hefur svo að ¾ hlutum meðlima, eytt dögunum á trésmíðaverkstæði Hauks Sig. og í krikjugarðinum í marga, marga daga og eiga mikinn heiður skilið svo ekki sé meira sagt.

Þetta eru þeir heiðursmenn; Guðbjörn, Gulli Jón og Haukur.

Öllum undirbúningi er nú lokið og allir verða kátir þegar athöfnin í garðinum verður, en s.k.v. venju verða þar guðsorð og söngur – aðallega auk tendrana á krossunum og jólatrénu sem klúbburinn setur upp.

Með svona pistli er ekki annað hægt en að láta myndaseríu fylgja, en ýmsir ljósmyndarar hafa lagt þar hönd á plóg: Alda María, Sunna Eir, Ingimar og K.Haraldur.

Þennan langa pistil skrifaði svo K.Haraldur s.k.v. venju.

Hátíðarkveðjur”.

Forsíðumynd/Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar