Greinartitill hér fyrir ofan, er fengin að láni frá tímarit.is , og sýnir okkur sögufræga byrjun á mjög svo umdeildri blaðagrein, eftir Svein Benediktsson, sem birtist í Morgunblaðinu 29. júní 1932.
Textinn hér neðar, með tilvísun í frétt í Alþýðublaðinu, þar sem minnst er á dularfullt og skyndilegt hvarf Guðmundar Skarphéðinssonar, sýnir okkur að afleiðingarnar af skrifum Sveins, urðu bæði alvarlegar og sorglegar.
Eftirmálar af þessari dagblaðabirtingu, drógu sögufræga dilki á eftir sér í ár, ef ekki í áratugi. Sumir hafa í reiði sinni, jafnvel gengið svo langt og kalla þetta “fyrsta pólitíska mannorðs-morð Íslands”
Alþýðublaðið 1. júlí 1932. Siglufjarðarmálin.
“Morgnablaðið, sem telur Guðmund Skarphéðinsson látinn, flytur nýjar svívirðingar um hann í dag.
Þegar Morgunblaðið gaf út aukablað til þess að geta birt myndskreytta skamma- og níðingsgrein eftir Svein Benediktsson um Guðmund Skarphéðinsson, þá þótti flestum íhaldsmönnum, sem von var of langt farið, og sögðu að það mætti ekki kenna öllum flokknum um það, sem einn óviti fremdi. Þetta er líka rétt. Það er ekki hægt að kenna öllum íhaldsflokknum um það, sem einn óviti, eða illmenni fremur, en hins vegar getur Morgunblaðið ekki snúið sér undan sökinni. Það birtir grein Sveins og bætir síðan gráu ofan á svart með grein þeirri, er það flytur í dag.” (tímarit.is: Siglufjarðarmálin)
Þessi saga geymir mikla áminningu til okkar allra, um að ólíkar pólitískar skoðanir okkar snúast bara um málefnaágreining og ólík pólitískt sjónarmið og mega ALDREI fara út í persónuárásir á æru og einkalíf pólitískra andstæðinga. Einnig er þetta góð áminning um að valdbeitingar möguleikar, þökk sé t.d. góðum fjármagns bakhjalli, eða aðgang að stórum fjölmiðlum, gegnum t.d. ættar og vinatengsl má ekki heldur misnota, til að hefna sín eða niðurlægja pólitíska andstæðinga.
Slíkt getur haft alvarlegar afleiðingar eins þessi sorglega mannraunasaga svo sannarlega sýnir okkur!
Í þessari sögusamantekt er stiklað á stóru, með tilvísunum í ýmsar blaðagreinar sem koma bæði frá vinstri og hægri, sem á sínum tíma flugu upp og niður, út og suður, út um allt land. Bæði bæjarblöð og stórborgardagblöð gera sér mikinn fréttamat úr þessu öllu.
Almenningur tekur hreinlega andköf og svelgist á kaffisopanum við lestur og margir áttu eflaust erfitt með að trúa því að pólitík geti skapað svona mikla sundrung, sorg og reiði…
Margir eldri Íslendingar og þá sérstaklega Siglfirðingar, kannast líklega við að hafa heyrt ýmsar, eflaust ýktar sögusagnir um merkilega atburði sem tengjast þessari sögu, en líklega aldrei gefið sér tíma í að kynna sér sannsögulegar heimildir, um upphaf og endi, frá A – Ö.
Greinarhöfundur styðst mikið við langa sögusamantektar grein frá Heimildasíðu Steingríms Kristinssonar, en hann hefur lagt mikinn tíma í að safna saman vefslóðum í tímaröð, allt frá 1929 til 1979 um allt og ekkert sem viðkemur þessari sögu
Steingrímur byrjar í sinni sögu á að segja frá sínum eigin persónulegu kynnum af Sveini.
Sjá meira hér í grein sem ber safntitilinn: Sveinn Benediktsson. ATH. Steingrímur bendir á, rétt eins og undirritaður að: “Neðanrituð gögn tengd Sveini Benidiktssyni, eru að mestu sótt á vefinn www.timarit.is “
Þessi sögusamantekt kom í rauninni upp í fyrra, varðandi sögugrúsk um nú horfið eftirminnilegt glæsilegt hús, með einstökum og fallegum hálfgerðum hallargarði og glæsilegum bogadregnum þaklínum á báðu göflum.
Í daglegu tali var þetta hús kallað Hólar. Í þeirri sögu fylgir með, annað nú nýlega uppgert hús heima á Sigló, sem enn í dag er kallað Hóla-kot. Þó svo að það sé mun stærra en sjálft Hólahúsið sem “kotahúsið” dregur sitt hálf háðslega nafn frá. En sagan segir að Guðmundur Skarphéðinsson hafi notað uppsláttar timbur frá byggingu steinsteypu húsins við Lindargötuna sem byggingarefni í Hólakot.
Sem sagt, ein aðalpersóna sögunnar byggði og átti bæði þessi hús á þeim tíma sem akkúrat þessi átakanlega saga gerist og þessar húseignir Guðmundar eru dregnar inni í þessa frægu: “Skamma- og níðingsgrein eftir Svein Benediktsson.”
ATH. Smellið á mynd og hún birtist þér stærri.
Allt eftir því sem ég hef rýnt meira í þessa sögu og öll hennar hliðarspor, finn ég að hún snertir mig djúpt og kannski mest vegna þess að ég er innfæddur Siglfirðingur og hef í gegnum árin heyrt mér eldri tala um allskyns atburði og tilfinningar sem sagan vekur enn í dag.
Tilfinningar og tal um óréttlæti, reiði, sorg og söknuð, jafnvel ofbeldi og hefnd. Þetta eru allt saman tilfinningar sem geta ýtt saman ólíklegasta fólki úr öllum pólitískum áttum í standa þétt saman og samtímis efla svona hörmungaratburðir, viljann til að… verja sig og sína með kjafti og klóm.
Þó svo að þessi saga sé nærri einnar aldar gömul, þá inniheldur hún ALLT, sem við alls ekki viljum hafa og lifa með í okkar litla samfélagi og sagan á stórt erindi til okkar í dag. Eflaust munu sumir sem lesa, gera sér pólitískan mat úr þessu og aðrir jafnvel segja… hmm… já, einmitt, ekkert er nýtt undir sólinni.
Greinar höfundur hefur valið að taka niður pólitísk gleraugu og sjá þetta söguferli meira út frá siðferðislegum hugsunum, um hvað er rétt og rangt og leyfilegt að gera til þess að ná sínu fram.
Þetta atriði vill ég meina er algjörlega óháð bæði trúarbrögðum og pólitískum stefnum.
Því réttlætiskennd er djúpt rótuð í þjóðarsál Íslendinga.
Með þessum lesgleraugum, get ég samt ekki séð annað en að þetta var samt….
… Ójafn leikur frá fyrstu byrjun!
Hverjir eru aðalpersónur sögunnar?
Sveinn er landsþekktur ættarstór útgerðarmaður, hann er mikill bissness maður og þar af maður framkvæmda og mikill hægri maður, áhrifavaldur og þekktur pistlapenni og situr í allskyns nefndum og valdastólum.
Maður með mörg járn í eldinum og eflaust umdeildur.
Guðmundur er alþýðumaður, þekktur dugnaðarforkur í síldarbænum Siglufirði, hann er aðallega skólastjóri, samtímis líka bæjar- og, verkalýðsfulltrúi, o.fl. Mikið til vinstri, en er samt í allskyns bissness eins og hinn.
Maður með mörg járn í eldinum og eflaust umdeildur.
Ástæðan fyrir því að ég segi að þetta var “ójafn leikur frá byrjun” kemur úr þessu augljósa valdamisræmi, sem ræður ríkjum á milli þessara tveggja herramanna og botnar í að Sveinn hefur greinilega beinan aðgang að stærsta fréttamiðli landsins og fær þar tvisvar með viku millibili tvær heilar bls.
Samtals 4 heilsíður!
Í að lýsa sínum persónulegu skoðunum og vonbrigðum og samtímis skrifa hreinlega andstæðing sinn niður í…
…vota gröf?
Siglufjarðarmálin!
Í mögum gömlum fyrirsögnum stendur “Siglufjarðarmálin” og hér verðum við að kíkja á þann pólitíska tíðaranda sem ræður ríkjum um og eftir 1930. Siglufjörður er minnst sagt fjárhagslega mikilvægur staður, varðandi efnahag landsins. Pólitíkin er með puttana inn í öllum málum og margir útgerðarmenn og pólitíkusar, berjast um að sitja í stjórnarstólum hjá Síldarverksmiðjum Ríkisins (SR) og það var einnig mikilvægt að eiga góða fulltrúa í hinni svokölluðu Síldareinkasölu-nefnd.
Í þessum stjórnum eru stórir hagsmunir í húfi, fyrir bæði einkaaðila sem og stóran hóp af verkamannalaunþegum og augljóst er að margir stjórnarfulltrúar sitja á fleiri en einum stól samtímis og gæta sinna eigin hagsmuna, jafnmikið ef ekki meira en hægt er að réttlæta með góðu móti.
Á þessum árum er mikill pólitískur hiti varðandi SR verksmiðjur og þeirra, tap og gróða, mest tap… og samtímis miklar og harðar pólitískar um sviptingar í Síldareinkasölunefnadar málum, en þar eru teknar stórar ákvarðanir um t.d. gæða flokkun síldar, síldarinnkaupa- og söluverð og sölusamninga við útlönd. Harðar deilur og hörð orð ganga manna á milli árið áður, eins og sjá má í t.d. tveimur stuttum greinum á sömu síðu í Vísi frá 7 desember 1931: Síldareinkasalan. Spilling á hæðsta stigi
og Ólafur Friðriksson biður um lögregluvermd.
“Siglufjarðarmálin” eru því einhverskonar safn orð, um allskyns síldarmálefni og aflahluta launa pólitík sjómanna og verkafólks o.fl.
Báðar aðalpersónur sögunnar sitja um tíma í ábyrgðarstöðum og utan við stjórnarstóla í ofannefndum stjórnum/nefndum, Guðmundur sem fulltrúi bæjarstjórnar Siglufjarðar og Sveinn sem fulltrúi útgerðarmanna. (1930)
Launa-lækkunar fundur hjá Síldarverksmiðjum Ríkisins!
Nú þurfum við aðeins að staldra við og kíkja á atburði sem gerast á stórum fundi á Siglufirði nokkrum vikum áður en þessi svokallaða níðingsgrein og aðrar greinar birtast. Þar er Sveinn i forsvari og tilkynnir þar að stjórnarmenn SR hafi tekið á sig 50 % launalækknun og þar á eftir tekur hann upp tillögu sína um að almennir starfsmenn SR taki á sig 33,7 % launalækkun. Guðmundur er ekki á staðnum þegar þessi 5 klukkustunda fundur byrjar, en hann er á leiðinni með skipi heim til Siglufjarðar.
Það er mjög svo augljóst út frá fyrri greinskrifum Sveins eftir ofannefndan fund í greinum sem birtust í Morgunblaðinu 24 júní, 1932, að Sveini fannst SR verkamenn taka bara nokkuð vel í tillögu hans um launalækkun.
Þar til að Guðmundur Skarphéðinsson verkalýðsforingi, birtist skyndilega í fundarlok og fær flesta til að skilja að björgun á taprekstri SR lægi ekki endilega í launalækkun verkamanna og stjórnarfulltrúa.
Þegar maður les þessar greinar, þá getur maður haldið að Sveinn sé fréttaritari hjá Morgunblaðinu.
Önnur greinin ber fyrirsögnina “Kaupdeilan í Síldarverksmiðju ríkisins“, en það er undirtitillinn “Skýrsla Sveins Benediktssonar” sem gefur í skyn að hér sé verið að birta mikilvægt fréttaefni um kaup og kjör verkalýðs landsins. Það má öllum vera ljóst að þessi fréttaflutningur er ekkert annað en pólitískur hagsmuna áróður og augljóst fyrir alla sem nenna að lesa greinina til enda að sjá að Sveinn er mjög svo sár, svekktur og reiður yfir því hvernig fundinum lauk.
Þessar tvær greinar eru meira eins og hálfgerður formáli á því sem koma skal viku seinna.
Hér er Guðmundur formlega kynntur fyrir Íslendingum með greinarfyrirsögninni:
” Forsprakki niðurrifsmanna” og síðan undirtitillinn: “Hver er Guðmundur Skarphéðinsson?”
Hér kemur fram viss niðurlægingar vilji í ýmsum ábendingum, til lesenda sem virðast aðallega vera orð til ókunnugra Reykvíkinga, sem eru líklega rétt svo mátulega áhugasamir fyrir að eyða tíma sínum í að lesa um einhvern landsbyggðar spjátrung.
En kannski greip það lesendur þegar orðið “Verkalýðssvikari” kemur sem millifyrirsögn og ofan á það ábendingar um að þessi Guðmundur, sé líka ótrúlega vanþakklátur því góða fólki sem hefur hjálpað honum að klifra upp á við í metorðastiga samfélagsins.
Er þá sérstaklega bent á svik Guðmundar við Siglfirska broddborgarann og athafnamanninn Þormóð Eyjólfsson og Guðrúnu eiginkonu hans, sem lengi vel var skólastjóri Barnaskóla Siglufjarðar, rétt eins og Guðmundur.
Ofan á þetta er ýjað að því að margt og mikið sé athugunarvert varðandi aðkomu Guðmundar að innflutningi á byggingarvörum sem seldar voru til fátækra verkamanna til að gera þá háða og eftir þau viðskipti, standa í skuld við sinn eigin verkalýðsforingja.
Einnig er gefið í skyn að Guðmundur hafi ekki hreint mjöl í pokanum varðandi t.d. aðkomu hans að málefnum kaupfélagsins og mjólkurbúinu suður á Hóli.
En Guðmundur gerir heiðarlega tilraun til að svara fyrir sig strax daginn eftir, í stuttu viðtali, eins og sjá má í þessari grein: Alþýðublaðið 25 júní 1932
Rógi hnekkt. Sveinn Benediktsson afhjúpaður.
Viðtal við Guðmund Skarphéðinsson
“En þar segir meðal annars: ” Svein Benediktsson, sá hin sami sem Framsóknarstjórnin skipaði í stjórn síldarbræðsluverksmiðju ríkisins og átti að verða sameiginlegur “kaup-lækkunar-forstjóri “Framsóknar og Íhaldsmanna, reit í Mgbl. í gær eina óþerralegustu róggrein sem rituð hefir verið í Íslenzkt blað….
… Kemur það skýrt fram í þessari grein, hve Sveinn hatar þennan mann og lætur hann æsta skap sitt ráða svo gjörsamlega fyrir sig að hann kann sér ekki hóf, svo að hann stendur sjálfur berstrípaður eftir….“
Guðmundur sjálfur segir síðan, stutt og laggott “að honum kæmi þessi skrif svo sem ekki á óvart, en honum finnst óþarfi að vera að elta ólar við manninn að svo stöddu.”
En það eina sem honum finnst mikilvægt, var að koma eftirfarandi á framfæri við lesendur í Reykjavík er að undirstrika: … “ummæli Sveins um að hann (Guðmundur) hafi viljað gangast að launalækkun, gegn þ´ví skilyrði að hann yrði formaður verksmiðjustjórnar, væru ósannindi frá rótum. Kvað Guðmundur þrátt fyrir það, þó hann þekkti Svein að óvöndugheitum á ýmsum sviðum, þá kæmi sér á óvart að hann skuli ljúga svona ósvífið…”
🧐 Hmm… Eflaust hefur Guðmundur tekið illa við sér varðandi ýmsar aðdróttanir í þessum skrifum Sveins, en líklega hrist þetta nöldur af sér, með góðra vina aðstoð. Sem kannski bentu honum á samlíkinguna við Séra Bjarna Þorsteinsson, sem samfara prestsstörfum, var vinsæll og umtalaður athafanamaður og allt í öllu eins og Guðmundur. En sagan segir að Sr. Bjarni hafi verið svo vinsæll á Siglufirði að hann var t.d. í framboði fyrir tvo stjórnmálaflokka samtímis.
Aðeins fimm dögum seinna, fær Guðmundur hreinlega pólitíska handsprengju í andlitið…
… og þá fær pólitískur áróður og óhróður miklar og alvarlegar afleiðingar. Líklega þær verstu sem til eru í stjórnmálasögu Íslands.
Þessi greina skrif Sveins fá í rauninni slæmar afleiðingar sama dag og hún birtist og strax daginn eftir kemur stutt frétt í Alþýðublaðinu:
Alþýðublaðið 30 júní 1932
Guðmundur Skarphéðinsson horfinn.
“Í gærkveldi barst sú fregn út um borgina, að Guðmundur Skarphéðinsson hefði ekki sést allan daginn og væri verið að leita hans.“
En tveimur dögum seinna birtist þessi grein, sem lýsir betur þeim þunga og sorglega, mannlega harmleik sem þessi áróðursskrif og ásakanir Sveins fá og minna okkur á í orðum að við erum að tala um ósköp venjulega manneskju. Skólastjóra, eiginmann og faðir barna:
Skutull 3 júlí 1932
Hvarf Guðmundar Skarphéðinssonar skólastjóra.
“Miðvikudagsmorguninn 29. júní gekk Guðmundur Skarphéðinsson skólastjóri á Siglufirði, sem einnig er formaður verkamannafélagsins þar, að heiman frá sér, eftir nýafstaðið símtal við Reykjavík, þar sem honum hafði verið sagt hið helzta úr níðgreinum Sveins Benediktssonar í Morgunblaðinu um Guðmund....”
… Kona hans hafði tal af honum, áður en hann fór út , og varð einskis óvenjulegs vör i fari hans. Kvaddi hann konu og börn eins og hans var vandi, er hann fór að heiman, en síðan hefir ekkert til hana spurst. Þó sást hann á götu, nefndri Vetrarbraut kl. 12:45 e. h. og var þá á úteftirleið í nánd við síldarbræðslu ríkisins….“
Mannorðsmorð?
Þetta orð kom upp í huga mínum eftir að hafa lesið greinarskrif Sveins, þennan örlagaríka miðvikudag 29 júní 1932, aftur og aftur til að skilja betur meiningu Sveins með þessu skrifum. Vert er að minna á að vikuna áður segir í Alþýðublaðinu um fyrri greinarskrifa birtingu Morgunblaðsins … “eina óþerralegustu róggrein sem rituð hefir verið í Íslenzkt blað….“
Þær greinar eru nánast “barnagælur” í samanburði við orðahörkuna og þær alvarlegu ásakanir sem koma fram í þessari tveggja blaðsíðna myndskreyttu grein.
Með það í huga að það líða einungis 5 sólarhringar á milli birtingu greinana, þá getur maður ekki að því gert að hugsa sem svo: Út í frá þeirri miklu gagnasöfnum og til sýnis sérfræði túlkunum á þeim gögnum, að Sveinn er líklega með heila hulduher sér til aðstoðar. Hér eru grafnar fram og birtar ljósmyndir af einkaheimili og eignum Guðmundar, skattaframtöl og nákvæmur sérfræði útreikningur á t.d. áætluðum skattsvikum o.fl.
Einhver hefur til og með hlaupið niður í Skipulagsstofnun ríkisins og sótt þar teikningar af nýbyggðu heimili Guðmundar og fjölskyldu og myndatextinn segir allt um, hver ætlunin er með þessum myndabirtingum.
Í þessari grein er ofan á fyrri ásakanir, sagt beint út að Guðmundur sé “ódæmdur skattsvikari” í stórum stíl og mannorð morða vilji Sveins, virðist ekki eiga sér nein takmörk, því hann segir einnig eftirfarandi undir millifyrirsögninni, SKATTSVIKARINN:
“Jeg lýsi Guðmund Skarphjeðinsson sem skattsvikara, skal hann bera það nafn með rjettu, hundur heita og hvers manns níðingur vera, ef hann stefnir mjer ekki fyrir þessi ummæli, svo að mjer gefist færi á að sanna þau fyrir dómstólum.“
Eftir að hafa skilað af sér ásökunum um skattsvik og fl og samtímis gefið í skyn að þessi Guðmundur sé mikill tækifærissinni og óáráðanlegur vinstri-vinur. Hér reynir Sveinn að skapa sundrun meðal vinstri vængja vina Guðmundur, með því að benda á að Guðmundur tali oft illa um vini sína, nema þegar að þeir komast áfram í metnaðarfullar ábyrgðarstöður, en þá verður Guðmundur skyndilega duglegur við að vingast við menn og málefni.
Nú kannski sér Sveinn að sér og áttar sig á því að nú þurfi hann að slá á léttari les-strengi og notar þá, heilmikið pláss á þessum tveimur áróðurs síðum í tilvísanir í skondar vísur ( 5 vers) sem hagyrtur ónafngreindur sjómaður yrkti, eftir að hann taldi sig hlunnfarinn af hinni þá, svokölluðu Síldareinkasölu og þá einhvern veginn samtímis af Guðmundi, liggur í undirtóni í skrifum Sveins.
Þessar vísur eru líklega það eina sem hægt er að segja sé pólitísk ádeila. Fyrsta og síðasta versið í vísnaflokknum lýsir vel tíðarandanum.
Millifyrirsögnin er:
Hinsta kveðja til Síldareinkasölu Íslands.
“Hví hlakkar íhalds hróðugt lið?
Hví hlær hann Tynes svona?
Er skrattinn sjálfur skilinn við?
Það skildu menn nú vona.
Hví er svo hljótt í Krataborg?
Hvað hryggir Erling karlinn?
Óútmálanleg ofursorg:
Einkasalan er fallin.“
Og í lokaversinu segir:
“Þig grætur sjálfsagt Svíaþjóð
og sjálfsagt Norðmenn líka.
Og Gyðingar af miklum móð,
en mest þín stjórnarklíka.
Þig grætur minna landsins lið,
sem lifir hafs á bárum,
og útgerðin og Íhaldið
—eflaust þurrum tárum.”
Höfundur óþekktur.
Vísur birtar í “Grein Sveins Benediktssonar í Morgunblaðinu, 29 júni, 1932.” (Tímarit.is )
Í lokaorðum Sveins undir fyrirsögninni “Niðurrifsmenn” er Guðmundur síðan settur í flokk mannskepnutegundar sem Sveini líkar augljóslega illa við og er greinilega í opinberum hótunar orðum, tilbúinn að ganga enn lengra, bæði varðandi mannorð Guðmundar, sem og annara Verkalýðsspjátrunga:
“Fyrir rúmum hálfum áratug varð hjer á landi vart við nýja manntegund, ef menn skyldi kalla. Þeir hafa haft það að atvinnu sinni að spúa eitri milli vinnukaupenda (atvinnurekenda) og vinnuseljenda (verkamanna). Vinnufriður og velgengni atvinnuveganna er þyrnir í augum þeirra. Þeirra atvinna er að rægja og ljúga til þess á þann hátt að reyna að upphefja sjálfan sig. Jeg hefi nú gripið Guðmund Skarphjeðinsson út úr hópi þessara manna og gengið svo frá honum, að hann ætti að þekkjast—
Síðar, er mjer vinnst tími til, mun jeg ekki telja það eftir mjer, að fletta ofan á fleirum úr hjörðinni.
Sveinn Benediktsson.”
Eftir þennan lestur gætu margt og mikið af viðkvæmu veraldarvefs vönu nútímafólki, fengi hland fyrir hjartað og strax þar á eftir hent sér yfir lyklaborðið og skrifað mótmæli við þessum ljótu skrifum Sveins. En sá möguleiki var ekki til staðar á þessum tíma og alvöru aðgengi að fjölmiðlum fáum gefið. Við þurfum að lesa þetta með augum tíðarandans.
já, það var mikil harka í pólitíkinni, en hér eru samt flestir, bæði vinstri og hægrimenn, innilega sammála um að hér var of langt gengið og siðanefnd blaðamannafélagsins var líklega ekki til á þessum tíma.
Mönnum er heitt í hamsi…
… Eins og sjá má í öðrum texta í grein sem vitnað er í strax í byrjun þessarar raunasögu er mikil hiti komin í málið tæpum 2 sólarhringum eftir að seinni grein Sveins birtist.
Alþýðublaðið 1. júlí 1932. Siglufjarðarmálin.
“...Af Siglufirði barst sú fregn í gær og var trúað af mörgum að lík Guðmundar hefði fundist í höfninni. En þetta er ekki rétt. Það hefir ekki fundist.…“
“...Í gær samþykkti stjórn verkamannafélagsins á Siglufirði, svo og fundur manna þeirra, er við verksmiðjuna vinna, að ekkert skyldi hreyft verða við verksmiðjuna fyrr en Sveinn Benediktsson væri komin úr verksmiðjustjórninni...“
“… Morgunblaðið með svívirðingargrein hinni seinni kom í gærmorgun til Siglufjarðar á hestum frá Sauðárkróki . Vegna illvilja þess, er blaðið hefir þegar vakið á sér með þessu máli á Siglufirði, þorðu aðstendur þess þar ekki að útdeila blaðinu…”
(ATH. Á þessu tíma er Siglufjörður ekki í bílavegasambandi við umheiminn, þar af einungis hægt að fara landleiðina þangað fótgangandi eða á hestum yfir Skarðið.)
“...þegar fyrri árásargrein Sveins Benediktssonar kom út í Morgunblaðinu, keypti Sveinn Benediktsson eða aðstoðarmenn hans bíl og tvo menn til að aka sem af tæki til Sauðárkróks með blaðið, þar sem bátur beið reiðurbúinn að flytja blaðið til Siglufjarðar.
Í lok greinarinnar er einnig sagt að Alþýðusambandsstjórn Íslands krefjist þess að Sveinn víki úr stjórn síldarveksmiðjunnar og að Siglfirðingar séu allir með tölu boðaðir á Almennan borgarafund í Nýja Bíó kl.8.1/2.
Umræðuefni: “Árásir Sveins Benediktssonar á Guðmund Skarphéðinsson og afleiðingar þeirra.”
Á bæjalínunni á Sigló er orðrómur um að Sveinn hafi sagt í viðtali eitthvað’ um að “jafna Guðmund við jörðu” og hann hafi verið svo ákveðin í að boðskapur hans bærist öllum, að hann keypti sjálfur 500 eintök af MBL til að dreifa sínum skoðunum í Siglufirði.
Ofan á þetta gekk orðrómur um að þegar Guðmundur sást á Vetrarbrautinni um hádegisbilið, að þá hafi hann verið á leiðinni í veiðarfæraverslun sem var þá þar í norðurenda götunnar. Keypt þar slatta af blý sökkum og fyllt vasa sína og þar á eftir “gengið í sjóinn” og látið sig hverfa.
En þetta eru auðvitað bara óstaðfestir hugarórar hjá æstu fólki og allskyns reiðiraus og ljót orð gengu nú, landshorna og manna á milli allan sólarhringinn.
Að láta sig hverfa… ???
Engin veit hvernig Guðmundi leið eða hvað hann var að hugsa, hann átti sér líklega einkyns ills von, þegar hann vaknaði, þennan aldeilis venjulega miðvikudagsmorgun. Eða í hvaða hugarástandi hann var, eftir að hann fékk símleiðis, greinagóða lýsingu á myndum og texta Sveins í Morgunblaðinu, sem enn hefur ekki borist í bæinn.
Í einhverjum greinum er seinna sagt, að Guðmundur hafi ekki verið alveg heill heilsu. Nefnt er t.d. hjartveiki og óvænt skyndileg yfirlið… hmm… hljómar kannski í dag, meira sem týpisk einkenni streitu , þreytu og vinnuálags.
Greinarhöfundur getur ekki að því gert, líklega vegna tíðaranda þessa söguára, að sjá fyrir sér senu í svarthvítri Mafíuósa bíómynd og atriðið sem ég sé fyrir mér er:
Skuggalegur Mafíu-gangster í skjóli nætur, læðist að útidyrunum á finu og fallegu húsi og leggur þar dauðan, illalyktandi fisk við dyrnar… Mafíuskilaboð um að húsráðendur eiga að skilja að ef lengra er gengið í einhverjum málum, mun sá hinn sami enda á sama stað og fiskurinn kom frá.
Einnig eru þetta samtímis skilaboð um að: Við vitum hvar þú og þín fjölskylda býr og við vitum allt um þig og þína hagi… Haltu þig á mottunni… Annars.. kemur eitthvað meira og verra, sem mun koma sér illa fyrir þig og þína nánustu…
Getur verið að Guðmundur hafi í örvæntingu sinni, hugsað sem svo:
OMG! Hvernig og hvar á ég að verja mig gegn þessu ásökunum og óhróðri, frá þessum háa herra og hans meðhlaupurum… þetta tekur engan enda…
Á ég séns í helvíti í þessa kalla?
Hef ég orku og þrek í þetta?…
… Fara fyrir dómstóla, opinbera allt þar og verja mína einkahagi, um skatta og tekjur, heimili og…. guð má vita hvað. Verður þá ekki ALLT og ekkert, dregið inn í þessa aumu sorgarsögu… og allt verður þetta eflaust gert opinbert í fjölmiðlum landsins. Vill ég virkilega draga konu, viðkvæm börn, ættingja og vini inn í þessa vitleysu?
Því það er augljóst að þessum mönnum er ekkert heilagt… Engin takmörk fyrir því hversu langt á að ganga, eins og augljóslega má lesa úr hótunarorðum Sveins…. Nei… kannski er bara best að láta sig hverfa… eða ??????
Eftirskjálftar og allskyns sögufræg eftirmál
Það er of langt mál að fara í saumana á öllum þeim pólitísku eftirskjálftum, sem fylgja þessu sorglega máli, en ýmsar, sannar og sumar líklega stórlega ýktar frásagnir, um hótanir og ofbeldi og dómsmál, varðandi t.d. skattsvika ásakanir Sveins o.fl. Bergmála manna á milli í ár og áratugi. Sem dæmi má nefna að á Heimildasíðu Steingríms Kristinssonar er úrdráttur úr og vísað í um 30 eftirmála blaðagreinar.
Eins og sjá má á eftirfarandi orðum, úr nokkrum blaðagreinum, þá fannst mörgum þeirra mannorð, af óseku vera dregið inn í þessi níðskrif um Guðmund og fór þessi orðabardagi vinstri og hægri manna, síðan út í tóma vitleysu og öfga:
“Morgunblaðið 4 júlí 1932
Dularfullt skeyti frá Siglufirði.
Skattanefnd Siglufjarðar heimtar af Sveini Benediktssyni upplýsingar um kæru hans.“
Sveinn var um frekar stuttan tíma þvingaður í “Íhaldsmanna skammarkrókinn” af aðallega sínum eigin flokksbræðrum, en kom síðan aftur fram á sjónarsviðið , tveimur árum seinna, í stjórn SR verksmiðjanna á Siglufirði.
Þar var mönnum mjög svo heitt í hamsi og Sveini var sagt opinberlega, að hann væri ALLS EKKI velkomin til Siglufjarðar. Þetta mál mun seint gleymast þar og líklega aldrei verða fyrirgefið.
Morgunblaðið 10. júlí 1932
Sveinn er að koma!
“Síðustu dagana hefir tvívegis orðið herhlaup um allan Siglufjarðarbæ, því það frjettist, að Sveinn Benediktsson væri að koma til bæjarins. í fyrra skiftið hafði Alþýðublaðið símað Kristjáni Dýrfjörð, að Sveinn myndi koma á Gullfossi með 50 „verkfallsbrjóta“ er hefja ætti vinnu í verksmiðjunni. En sú fregn var afturkölluð af blaðinu, eftir að Gullfoss var farinn hjeðan.”
Morgunblaðið 31. júlí 1932
Siglfirskir bolsar gera aðsúg að Sveini Benediktssyni og berja hann varnarlausan í rúminu.
“Klukkan að ganga sjö á laugardagsmorgun ruddist allmikill mannsöfnuður inn í híbýli Sveins og vakti hann og nokkra samstarfsmenn hans, er þar sváfu.“
Daginn eftir gerist síðan þessi frægi atburður:
Alþýðublaðið 1 ágúst 1932
Siglfirðingar svara Lappó-lýðnum.
“Sveinn Benediktsson kom til Siglufjarðar á laugardaginn. Siglfirðingar ráku hann af höndum sér um borð í Óðin um kvöldið. Eftirdæmi atburðanna í Keflavík og Bolungavik.”
Vísir 3. ágúst 1932
Ofbeldisverkið á Siglufirði. Almenningur hefir með undrun lesið frásagnir af síðasta ofbeldisverki siglfirskra æsingamanna , er þeir fóru fyrst að Sveini Benediktssyni með barsmíð og fluttu hann síðan nauðugan um borð. í varðskipið Óðin, er á Siglufjarðarhöfn lá. Menn spyrja hverja heimild siglfirskir jafnaðarmenn hafi til þess að flytja friðsama borgar á burtu ?
Lokaorð…
… en eins og sjá má, þá er þessi saga endalaus!
Því sjö árum seinna á þessi atburður að hafa átt sér stað í danssalnum í hótel Hvanneyri.
Alþýðublaðið 21. ágúst 1939
Árás á Svein Benediktsson á Siglufirði i fyrrakvöld.
“Lögreglan varð að forða honum undan reiði óánægðra flokksbræðra hans...
.. .Þegar Sveinn kom inn, kom upp kurr í salnum, og Jón Gíslason, sem ásamt Aage Schiöth, hafði sagt af sér fulltrúastörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í bæjarstjórn Siglufjarðar fyrr um daginn, í mótmælaskyni við gerðir flokksbræðra sinna í síldarverksmiðjumálinu, hrópaði upp”:
„Út með Svein Benediktsson“.
“Það er ekki hægt að skemmta sér, þar sem Sveinn Benediktsson er viðstaddur, það getur að minnsta kosti enginn Siglfirðingur. Hann eitrar loftið í kringum okkur. Hann er og verður ætíð öllum til ills og bölvunar, hvar sem hann sýnir sig. “
“Við viljum ekki vera undir sama þaki og hann“. Er Jón hafði þetta mælt, heyrðist hrópað úr ýmsum áttum úr salnum”: ,
“Burt með Svein Benediktsson og Þormóð Eyjólfsson úr bænum!“
ATH. Smellið á mynd og hún birtist þér stærri.
Myndaskýringartexti: Eins og sjá má í texta hjá pólitíska bæjarblaðinu Mjölnir 1941, er allt gert að pólitíkskri ádeilu. Myndirnar eru fengnar að láni úr grein, eftir Siglfirska sögumanninn Leó Ólason. ” Fáein orð um Þormóð Eyjólfsson” en þar er hægt að lesið meira um þennan merkilega mann, í t.d. kaflanum: “Pólitíkin og Þormóður Eyjólfsson.
En Mogginn svarar að sjálfsögðu ofannefndri frétt Alþýðublaðsins daginn eftir…
Morgunblaðið 22. ágúst 1932
Róstur á síldarballi á Siglufirði
“Róstur einhverjar urðu á dansleik á Siglufirði á laugardagskvöld, og er það ekki nýlunda þar… En Alþýðublaðið í gær gefur í skyn ….. Sannleikurinn er þessi: Dansleikur var haldinn á hóteli því, sem Sveinn Benediktsson býr…
… Einn drukkinn samherji Alþýðublaðsins, þekktur norður þar, rjeðist aftan að Sveini og veitti honum áverka. Sagði tíðindamaður Mbl., á Siglufirði í gær, að nokkrir valdamenn á staðnum væru að reyna að koma af stað æsingum gegn Sveini Ben., Þormóði Eyjólfssyni o. fl., í sambandi við Rauðkumálið. Bak við þessar æsingatilraunir stæði m. a. Erl. Þorsteinsson alþm...”
Lokaorðin í þessari löngu sögu, verða að vera tilvísun í þessa Morgunblaðsfrétt, sem birtist skömmu eftir að Sveinn var rekinn frá Siglufirði og þau lýsa vel hinum mikla pólitíska hita, sem fylgdi þessum sögufrægu níðgreinum Sveins Benediktsson um Guðmund Skarphéðinsson:
Morgunblaðið 4. ágúst 1932
Samþykktir.
Verkalýðsfélag Siglufjarðar samþykkti um daginn, að banna Sveini Benediktssyni að dvelja á Siglufirði.
Verkalýðsfjelag Siglufjarðar hefir nú með ofbeldi framkvæmt þessa samþykkt sína.
Spyr nokkur um það, hvort samþykkt þessi sje lögleg?
Dettur nokkurum það í hug?
Víkingar fara ekki að lögum, segir gamalt máltæki.
Verkalýðsfjelag Siglufjarðar ekki heldur...
“… Og þeir menn, og þau blöð, sem fylgja hinni svonefndu verkalýðshreyfingu, láta sjer vel líka aga og lagaleysið, mæla því bót, þegar ofbeldi er beitt og engum lögum er fylgt…”
Þetta er sagan sem má ekki gleymast og öll hennar eftirmál ættu að vera okkur öllum, víti til varnaðar, um að fara varlega með stór orð í árásum okkar á pólitíska andstæðinga okkar. Því þeir / þær, eru líka frænkur / frændur okkar og vinnufélagar og nágrannar eftir kosningar!
Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson
Í góðri samvinnu við Siglfirska sögumanninn:
Steingrím Kristinsson
Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/
Forsíðu ljósmynd o.fl.:
Mynd af stóru spjaldi, ljósmyndari óþekktur, myndin er endurunnin með gervigreind af Steingrími Kristinssyni.
Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
Aðrar myndir eru skjáskot af greinum, fengin til láns frá tímarit.is.
Heimildir:
Vísað er í ýmsar heimildir í vefslóðum.
P.s. Fyrir þá sem ekki hafa fengið sig fullsadda af pólitík og öllu sem henni fylgir, geta sér til ánægju lesið skonda sögu og minningar greinarhöfundar, um pólitískt uppeldi í síldarlausum síldarfirði á síðustu öld.
PÓLITÍSKT UPPELDI Í SÍLDARLAUSUM SÍLDARBÆ. 50 MYNDASYRPUSAGA