Rusl og meira rusl – kannski á maður bara að loka augunum og láta þetta vera? Þetta skrifar Raggi Ragg á fésbókarsíðu sinni.
En hann lætur alls ekki deigan síga – dag eftir dag fara þau, hann og Lísa Dombrowe, allar fjörur og mýrar og móa frá Hólsárósi og út að Staðarhóli, þriggja kílómetra leið – OG PLOKKA! – næstum endalaust plastdraslið. En svo kemur að því eftir mikla vinnu og þolgæði að jörðin er hrein, umhverfið snyrtilegt a.m.k. á svæði þeirra og sumargestir okkar geta gengið þar um án þess að við skömmumst okkar.
Allir dagar þeirra eru dagar umhverfisins!
Þetta mikla útivistarfólk og fjallagarpar fara einnig um Héðinsfjörð, hreinsa rusl og taka stórt svæði norðurundir fjöru og slá þar lúpínu sem var á góðri leið með að leggja allt undir sig. Mikið eljuverk sem landeigendur kunna vel að meta.
Með þessari litlu frásögn fylgja myndir frá landhreinsun þeirra Ragga og Lísu og þar má m.a. greina hvers lags plast hefur verið á ferð um allan fjörð á stormasömum vetri.
Ýmsar leifar frá útgerð og veiðum, mikið heimilissorp, einangrunarplast sem molnar í frumeindir sínar, rúllubaggaplast frá tómstundabúskap og pokar merktir frozen raw shell on prawns héngu á girðingu á Saurbæjarási eins og þvottur á snúru.
Mikilvægt er að allir dagar okkar séu dagar umhverfisins, við tínum upp rusl á vegi okkar og síðast en ekki síst: Við öll, almenningur og ábyrgðarmenn fyrirtækja – munum að ganga tryggilega frá sorpílátum á þeim árstíðum þegar helst er stórviðra von!
Á forsíðumyndinni eru Raggi og Lísa á vettvangi.
Texti og myndir: Örlygur og Guðný.