Tuttugasta brautskráning frá Menntaskólanum á Tröllaskaga fór fram við mjög óvenjulegar aðstæður laugardaginn 23 maí.

Þrjátíu og tveir nemendur brautskráðust en samtals hafa 343 útskrifast frá skólanum. Tólf brautskráðust af félags- og hugvísindabraut, sjö af íþrótta- og útivistarbraut, fimm af kjörnámsbraut, þrír af myndlistarsviði listabrautar, þrír af náttúruvísindabraut, einn af stúdentsbraut að loknu starfsnámi og einn af starfsbraut.  Af þeim 32 sem brautskráðust voru 22 fjarnemar sem koma víða að.

Í upphafi vorannar voru nemendur við skólann 388. Þar af voru 312 í fjarnámi. Meira en helmingur þeirra býr á höfuðborgarsvæðinu. Á vorönninni voru nemendur flestir á félags- og hugvísindabraut 172, næst flestir voru á náttúruvísindabraut 63, á listabraut voru 44 og 35 á íþróttabraut.

Lára Stefánsdóttir skólameistari ræddi um viðbrögð við breytingum í skólaslitaræðu sinni. Á erfiðum tímum reyni á hæfileika fólks til að endurskipuleggja líf sitt og starf. Hún sagðist vera stolt af nemendum og kennurum skólans sem hefðu staðist með prýði þá raun sem covid-19 faraldurinn lagði á þá á vorönninni. Hjá Láru kom fram að brottfall úr fjarnámi í skólanum væri eitt hið minnsta í heiminum. Umsækjendur um fjarnám væru miklu fleiri en hægt væri að taka við eins og stendur og hefði því verið óskað eftir heimild menntamálaráðuneytis til að fjölga nemendum.

Kennslufyrirkomulag skólans kom sér margoft einstaklega vel á þessum óvenjulega vetri óveðurs og veiru, sagði Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, aðstoðarskólameistari í ávarpi sínu. Hún sagði að framan af skólaárinu hefði verið gestkvæmt í skólanum og meðal annars verið haldinn fræðsludagur fyrir alla framhaldsskólakennara á Norðurlandi og tekið á móti stórum hópi kennara Menntaskólans í Reykjavík. Skólinn hefði verið svo heppinn að fá mikið af styrkjum til erlends samstarfs en þar hefði faraldurinn sett strik í reikninginn á vorönninni. Af sömu ástæðu hefði sýning á verkum nemenda í annarlok ekki getað orðið með hefðbundnum hætti. En vegna þess að fólk væri óhrætt við nýjungar og hugsaði í lausnum væri sýningin stafræn og öllum opin á netinu. Mjög vel hefði tekist til með þá nýbreytni.

Ásdís Ósk Gísladóttir flutti ávarp nýstúdents. Hún sagði að skólinn byði fjölbreytt nám og væri stöðugt að batna. Viðbrögð hefðu verið til fyrirmyndar á fordæmalausum tímum á vorönninni. Hún þakkaði kennurunum fyrir samveruna og sagðist hafa lært mikið þau þrjú ár sem hún var í skólanum. Hún sagðist kveðja skólann stolt og full þakklætis.

Hörður Ingi Kristjánsson, nemandi á tónlistarbraut og Guðmann Sveinsson tónlistarkennari lífguðu upp á brautskráningarathöfnina með tónlistarflutningi.


Mynd og heimild: MTR