Lesandi Trölla.is bað um að birt yrði hugleiðing hans um safnanir á Siglufirði í nóvember og desember. Trölli.is býður lesendum sínum að senda inn frétt, greinar, hugleiðingar eða spurningu sem við leitum svara við.

 

“Mörgum er farið að blöskra hið sífellda ónæði af sölufólki hér í bæ þótt fullur skilningur sé á því að stundum þurfi að afla fjár til ýmissa hluta. Það er hins vegar eins og þau sem að þessu standa haldi að einungis tveir mánuðir séu í árinu, nóvember og desember, og að þess vegna þurfi að hrúga öllu á þá.

Hjálparstarf kirkjunnar byrjaði í lok október og Neyðarkallinn fór af stað nokkrum mínútum á eftir, í orðsins fyllstu merkingu. Heyrnleysingjafélagið var um það leyti, fyrir eða eftir, að selja happadrættismiða, og einnig Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg sem og Tennis- og badmintonsamband Íslands, kleinur voru á boðstólum hjá einhverjum öðrum, KF var með eldhús- og salernispappír, TBS með lakkrís, blakfélagið með karamellur, 5. flokkur drengja í KF/Dalvík með túlípana og nú eru ungmenni á vegum Björgunarsveitarinnar Stráka að selja batterí, eldvarnarteppi og reykskynjara. Svo verða örugglega einhver samtök með jólakort á næstunni.

Þá er ónefnd öll önnur sölustarfsemi sem fer fram á Facebook og víðar, bingó og fleira.
Þetta eru þeir mánuðir sem fólk á erfiðast með að gefa því jólin eru framundan og nóg með peninginn að gera í annað í því stússi öllu.
Hvað skyldi valda þessu?

Hér með eru forráðamenn hvattir til að endurskoða þetta fyrir næsta haust, svo að hægt sé að dreifa þessu yfir lengra tímabil. Það myndi gleðja bæjarbúa fremur en hitt. Auðveldast væri að forráðamenn hinna ýmsu félagasamtaka boðuðu til fundar og ræddu þetta sín á milli og ákveddu í framhaldinu hver yrði hvenær og hvar, eftir því sem hægt væri. Þetta alla vega gengur ekki óbreytt, veldur bara óþarfa leiðindum og pirringi.
Gerum betur.”