Fyrr í haust kallaði fjölskyldusvið Húnaþings vestra eftir tilnefningum frá íbúum sveitarfélagsins um þá aðila sem þeir telja eiga skilið virðingarvott fyrir verk sín eða störf í þágu samfélags okkar. Viðurkenningarnar eru veittar annað hvert ár og er er þetta í þriðja sinn sem það er gert. Fjölskyldusviði bárust margar góðar tilnefningar og var úr vöndu að velja.
Í gær voru samfélagsviðurkenningar Húnaþings vestra afhentar á fundi félagsmálaráðs. Eftirtaldir aðilar fengu viðurkenningu að þessu sinni.
Elínborg Sigurgeirsdóttir:
Elínborg hefur lagt mikið af mörkum í þágu tónlistar í Húnaþingi vestra. Hún hefur um áratugaskeið starfað sem skólastjóri, kennari, undirleikari, meðlimur í hljómsveitum og nánast öllu sem kemur að útbreiðslu tónlistar og sönglistar sem er með miklum blóma í sveitarfélaginu.
Þuríður Þorleifsdóttir:
Þuríður hefur með einstakri elju og dugnaði unnið að endurbótum á Verslunarminjasafninu og Gallerí Bardúsu. Óhemju mikil sjálfboðavinna liggur að baki þeim árangri sem þar hefur náðst sem hefur vakið eftirtekt heimafólks og gesta Húnaþings vestra.
Leikflokkur Húnaþings vestra:
Leikflokkurinn hefur vakið athygli fyrir öflugt starf og metnaðarfull verkefni. Fyrr á árinu var sýning leikflokksins á Hárinu valin sem athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins á landinu. Leikflokkurinn er fyrirmyndar félagsskapur og hvetjandi fyrir samfélagið og hefur lagt sitt af mörkum við að kynna samfélagið út á við.
Myndir: Húnaþing vestra