Tuttugu og einn nemandi brautskráðist frá Menntaskólanum á Tröllaskaga í gær. Þetta er sautjánda brautskráningin frá skólanum og hafa 244 brautskráðst frá upphafi. Útskriftarnemar eru frá ellefu stöðum á landinu, fjórtán þeirra eru fjarnemar og voru fimm þeirra viðstaddir brautskráningarathöfnina. Nemendur á haustönninni voru um 330 og þar af um 230 skráðir í fjarnám, sem er svipaður fjöldi og síðustu annir. Meira en helmingur fjarnema býr á höfuðborgarsvæðinu. Skólinn hefur skapað sér afgerandi sérstöðu á sviði fjarkennslu og notkunar upplýsingatækni. Brautskráningarathöfnin var send út á netinu og gátu nemendur í fjarskanum fylgst með. Vitað er um einn sem sat spenntur við tölvuna sína á Kanaríeyjum. Nýjasta tæknilega viðbótin eru tvær svokallaðar fjærverur sem teknar voru í notkun nýlega. Kennari staddur í Svíþjóð var viðstaddur athöfnina í annarri fjærverunni. Þær auðvelda bæði kennurum og nemendum í fjarskanum að taka þátt í skólastarfinu. Á önninni hélt skólinn alþjóðlega ráðstefnu á vegum EcoMedia Europe um upplýsingatækni í skólastarfi. Starfsmenn hafa verið á faraldsfæti innanlands og utan þar sem þeir hafa kynnt skólanna og aðferðafræði hans og aflað sér nýrrar þekkingar og færni.

Lára Stefánsdóttir, skólameistari sagði nemendum sem brautskráðust að þeir væru frábærir. Hefðu sett sér markmið og náð þeim. Starfsmenn skipulegðu námið en án nemenda væri öll þeirra iðja til einskis. Fjölskyldurnar skipta líka miklu máli sagði Lára, þær eiga að láta sig varða hvað nemendurnir læra í skólanum, ekki skipti öllu máli að þar sé skemmilegt að vera, þótt auðvitað spilli það ekki fyrir. Mestu máli skiptir að tileinka sér góð vinnubrögð, þekkja styrkleika sína og veikleika og lifa svo í núinu, læra að njóta stundarinnar, þannig verður lífið skemmtilegt.

Sóley Lilja Magnúsdóttir flutti ávarp fyrir hönd nýstúdenta. Hún sagði að nám og kennsla við skólann hefði þróast ótrúlega hratt á meðan hún hafi verið hér nemandi. Í samræðum við erlenda nemendur í samstarfsverkefnum hafi sér orðið ljóst nemendur í MTR hefðu það ótrúlega gott og ættu marga góða valkosti. Kennarar væru duglegir og legðu mikið á sig. En málið væri að sinna náminu jafnt og þétt og læra góð vinnubrögð. Nú færi útskriftarhópurinn út í lífið í mismunandi áttir en tæki með sér góðar minningar um vistina í skólanum og góða vináttu þar kviknaði.

Brautskrániningarathöfnin fór fram í sal skólans Hrafnavogum og setti tónlistarflutningur Jóns Þorsteinssonar og Ave Köru Sillaots hátíðalegan svip á hana. Myndir