Alzheimersamtökin hafa unnið að aukinni vitundarvakningu um Alzheimer um langt árabil.
Liður í því er átakið Munum leiðina sem felst í því að koma upp fjólubláum bekkjum í sveitarfélögum víða um land en fjólublár er alþjóðlegur litur Alzheimer sjúkdómsins og annarra heilabilunarsjúkdóma.
Nú hafa verið settir upp þrír slíkir bekkir í Húnaþingi vestra, einn við Riis-hús á Borðeyri, einn á gönguleið gönguhópsins á Laugarbakka og einn við skólabrúna á Hvammstanga.
Sveitarfélagið festi kaup á bekkjunum og nemendur í vinnuskólanum máluðu þá í fjólubláa litnum.
Bekkirnir eru stöðugir og veglegir trébekkir. Þeir setja svip á umhverfi sitt í fallega fjólubláa litnum og verða vonandi góðir áningarstaðir fyrir alla á göngu um sveitarfélagið.
Vonandi verða þeir líka til þess að auka vitund um Alzheimer og aðra heilabilunarsjúkdóma.

