Siglfirðingurinn Hólmfríður Ólafsdóttir opnaði málverkasýningu í anddyri Grensáskirkju laugardaginn 4. október og verður hún opin út október á opnunartíma kirkjunnar og einnig er hægt að hafa samband við Hólmfríði ef fólk vill skoða sýninguna á öðrum tíma.

Sýningin er haldin í tilefni af 50 ára afmæli Hólmfríðar á þessu ári, flest verkin eru olía á striga og unnin á árunum 2015 – 2019. Einnig eru nokkrar skissur og vatnslitamyndir.

Hólmfríður er dóttir Ólafs Kristins Björnssonar (jafnan nefndur Óli Bubba) heitins og Kolbrúnar Símonardóttur, hún er fædd og uppalin á Siglufirði en flutti suður um tvítugt. Hún hefur alltaf verið mikið fyrir að teikna, átti sér þann draum að verða málari þegar hún yrði stór og byrjaði að mála um tvítugt.

Fór hún í Myndlistarskóla Kópavogs 2015 og fór þá fyrst að mála fyrir alvöru. Síðan þá hefur hún tekið þátt í nokkrum samsýningum með skólafélögunum og hélt einkasýningu í Þykkvabæ síðastliðið sumar.

Hólmfríður er gift Guðmundi Elíassyni og á þrjú börn af fyrra hjónabandi, þau Sigrúnu Völu, Hákon Orra og Þorbjörn Óla Árnabörn.

Sjá nánar um viðburð: Hér

Sjá: Málarasíða Hófíar

 

Sýningin stendur út október á opnunartíma Grensáskirkju

 

Fjöldi manns mætti á opnunina

 

Tvö af verkum Hólmfríðar

 

Systurnar Hólmfríður Ólafsdóttir og Hrafnhildur Ólafsdóttir

 

Myndir: úr einkasafni