Margar kynslóðir Siglfirðinga hafa smíðað sér kajak úr bárujárnsplötu á síðustu öld. Þetta var eldgömul Siglfirsk hefð og kunnáttan hefur færst á milli krakka kynslóða í áratugi. Enginn hefur geta sagt nákvæmlega hvenær þessi sérstaka kajakasmíði byrjaði, eða sagt hvaðan þessi hugmynd kemur. Steingrímur Kristinsson sem er fæddur 1934, minnist þess að hafa sem gutti smíðað sér kajak ásamt öðrum Bakkaguttum þegar hann var 9-10 ára, sem sagt kringum 1944.

Strax eftir birtingu þessarar samantektar, er það einnig er nokkuð ljóst að svona kajakasmíði tíðkaðist í öðrum bæjarfélögum, víða um land.

Pistla höfundur hefur oft áður birt myndir og sögur sem tengjast kajaka-ævintýrum, skæruhernaði o.fl. í suðurbænum, en aðal leiksvæðið þar var Leirutanginn, sem fór ört stækkandi á þessum tíma.

Sem gott dæmi um að báta smíða aðferðin hélst nokkuð óbreytt í áratugi, er að í lýsingum frá Steingrími sem er 30 árum eldri en undirritaður, er að hans sem og mínar eigin minningar og annarra mér yngri eru alveg eins.

Þetta er ekkert svo flókið dæmi og eins og sjá má í grein á sigló.is frá Síldarævintýrinu 2010, þá skellti Jóhann F Sigurðsson  (Jói Abbýar) saman einum bárujárnskajaka á hálftíma eða svo, líklega hafði hann allt efni við hendina á staðnum.

Smíðin hefst alltaf með einmitt efnisleit, hvar getur maður fundið, stol.. góðri bárujárnsplötu, helst ekki of ryðgaðri og ekki með of mörgum naglagötum. Það er lúxus ef maður kemst yfir ónotaða plötu.

Siggi Tommi bróðir minn, minnist þess 9-10 ára gamall að hafa verið nokkra daga við kajaka smíðar, ásamt vinum sínum Guðna Lilju og Árna Geir Sigurðssyni. Verkið fór fram í garðinum hjá Guðna á Laugarvegi 16, undir strangri handleiðslu eldri bræðra hans Kidda  og Jóa. (Synir Kidda Rögg skipstjórar og Lilju) Kajakinn var mjög glæsilegur enda var bárujánsplatan splúnku ný og fengin “að láni” frá Steinari hótelstjóra á Höfninni sem var að byggja sitt hús við Laugarveg 18. Við vonum að Steinar og Vilborg fyrirgefi okkur núna þegar glæpurinn er afhjúpaður.

Þá voru fundin á haugunum eða hjá einhverju tréverkstæðanna um 50-70 sm. langir timburbútar, oftast 1½ tomma x 6“ sem notað var sem stefni og skutur. Þá var gjarnan notaður þakpappa saum/naglar með stórum flötum haus og svo stálbik… eldivið og góða dollu til að bræða stálbikið í. Sleggju til að berja niður og fletja út bárurnar og góðan hamar og síl til að gera göt fyrir stefnisnagla og fl. . Thats It…

Í  byrjun fylgir þessu mikil hávaði, því gott er að hafa slétt og hart undirlag þegar bárurnar eru barðar niður.

Bárujárnsplatan var síðan beygð saman í samloku að spýtunum og negld lauslega til að byrja með og síðan var helt bráðnu stálbik á milli og neglt síðan að fullu. 

Bátslagið var mótað nokkuð jöfnum höndum og fótum, með því að glenna út samlokuna hægt og rólega, þar til allir voru ánægðir. Það þurfti oftast þrjá stráka í þetta ferli. Síðan varð maður að flatbotna miðjuna á kajaknum og þar á eftir tók við meiri vinna við þéttingar með stálbiki.

Hvað er stálbik…

… gætu margir yngri lesendur spurt ?

Tja, þetta er gamalt bindi/þétti-efni (bitumen) grjótharðir svartir olíu glansandi klumpar. Bráðnar og mýkist við frekar lítinn hita og oft á tíðum þá tuggðum við smá bita eins og tyggjó til að fylla í minni naglagöt á bárujárns plötunni. Efnafræðilega náskylt malbiki og örugglega ekki holt að hafa þetta í munninum. En enginn ældi og enginn dó.

Stálbik gat maður oft „fundið“ inn í gömlum síldarbrökkum, eða svo spurði maður eftir þessu og keypti ódýrt í slippnum… eða kannski í veiðifærabúðinni hjá Gogga Fanndal.

Minnist þess að við reyndum að nota gluggakítti sem þéttiefni í skut og stefni, en það festist illa við bárujárns stálið.

Kajakasmíða og siglinga athafnasvæði svæði bæjarins voru að mestu leyti í Hvanneyrarkróknum eða á sunnanverðum Leirutanga.

ATH. Smellið á mynd og hún birtist stærri.


Bakkaguttar voru EKKI velkomnir suður á leirurnar og við suðurbæjarguttar sömuleiðis ekki velkomnir út í Bakka með okkar kajaka. Stundum þorði maður varla að fara á sundæfingar í Norðurbænum.

Árni Þórðar segir t.d. í skemmtilegu viðtali á sigló.is að harkan í þessu var oft mikil, ef einhverjir „aðkomuguttar“ skyldu eftir kajakana sína á Leirutanganum, þá máttu eigendur búast við að daginn eftir, koma að kajaka sem var brotin snyrtilega saman eins og servétta.

Sumir kajakar voru af vandaðri gerðinni, negldur var listi á innanverða kanta og svo smíðaður hvalbakur að aftan og framan. Síðan málað í flottum bátalitum.

Í stríðsleikjum var oft keyrt á fullu á hvern annan, sumir voru grófir og voru með 4 tommu nagla framan á stefninu. Undirritaður fékk einu sinni slíkan stefnisnagla í lærið er siglt var inn í síðuna á kajaknum mínum. Við harðan árekstur á aðra eða fjörusteina gat það gerst að stálbiksklessan sem þétti stefni hrökk úr í heilu lagi.

Ekki gott mál ef maður var ekki með góða ávaxtadós til að ausa út vatni á heimleiðinni.

Einstaka kajakar voru tveggja manna, en flest allir fyrir einn. Sæti voru oftast beyglaður gamlir smurolíubaukar og segir Steingrímur að baukurinn var samtímis björgunarvesti ef maður vallt um koll. Annars var ekki mikið annað að gera en að reyna að draga kajakinn í land, því það var lífsins ómögulegt að komast aftur um borð einn og vandræði líka þó maður fengi aðstoð.

Við suður á leirunum gátum oftast botnað, þeir í Hvanneyrar króknum þurftu helst að kunna að synda. Enda var lögregla bæjarins oftar þar að agnúast út í of kalda Bakkakajakagutta. Við í suðurbænum fengum mest að vera í friði, svo framarlega sem við vorum ekki að asnast í siglingum norður fyrir stálþilið á Leirutanganum.

Við vorum mikið á siglingum suður á Langeyri og stundum upp í Hólsá og ekki síst í mýrarflákanum austan við flugvöllinn. Einnig rérum við oft út í steinsteypuprammana tvo eða jafnvel í góðu veðri og á háflóði inn í  Skoger skipsflakið og lékum okkur þar í sjóræningjaleik.

Að róa út í Evanger rústir var á mörkunum, en OK, ef farið var með ströndinni. Ég minnist einnig róðrarferða út í Selvíkur vita og sumir réru alla leið út á Siglunes. Það var reyndar ekki vel séð af foreldrum eða lögreglu…

Að mestu leyti fengum við blessuð börnin að vera í friði, við smíðuðum á hverju sumri, nýja kajaka, kofa, bryggjur, fleka o.fl. á Leirutanganum og sigldum á öllu sem flaut. Undirritaður hafði ekki langt að fara í þennan ævintýraheim, sem var skemmtilegur líka á fallegum vetrardögum, eins og sjá má á myndunum hér undir.

ATH. Smellið á mynd og hún birtist stærri.

Þessar ljósmyndir koma úr safni Siglfirska sögumannsins Leós Óla og eru þær teknar snemma vors 1967, ómálaða húsið til vinstri er æskuheimili pistlahöfundar og þangað flutti ég 1968. Allir strákarnir á myndunum er Brekkuguttar og sá sem situr á tunnu á ísjaka er Leó sjálfur.

Sumir höfuð vit á því að róa kajökum, en Leó og nokkrir félagar stjaka sér út á leirurnar á ísjaka.

Svo nær ekki prikið í botn og þeir reka á ísjakanum norður fyrir Leirutanga. Nú voru góð ráð dýr, en þetta er kaldir alvöru Brekkuguttar og svalastur af öllum er töffarinn Leó. Hann stingur sér til sunds og syndir að Leirutanganum og labbar svo í rólegheitunum heim til afa og ömmu uppá Hverfisgötu. Hinum var bjargað með bát, minnist þess að þessi Brekkugutta hetjusaga var sögð í áratugi og færðist á milli krakka kynslóða suður á Leirutanganum.

Sjá söguna í heild sinni hér: Smásaga úr fortíðinni.

Að lokum kíkjum við á myndaalbúm, sem minna okkur á æsku ævintýri heima á Sigló á síðustu öld. Það var hægt að sigla á hverju sem er og mikið að gera og sjá við alla strandlengjuna í firðinum fagra.

ATH. Smellið á mynd og hún birtist stærri.

Ljósmyndari er Steingrímur Kristinsson á öllum myndunum, fyrir utan þeirri síðustu. ATH. Strákurinn í sundskýlunni var líklega í sundi í sundhöll Siglufjarðar, þegar hann frétti að það væri selur í fjörunni beint fyrir neðan.

Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Forsíðu ljósmynd:
Steingrímur Kristinsson.
Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.