Blíðviðri á tíu maí-dögum var meira en elstu karlar og konur muna. Blíðan leiddi það af sér að lífið var gott; mannfólkið naut sín, fuglar fóru að verpa með fyrra falli og gróður óx af krafti. En umskiptin urðu snögg. Á fyrstu dögum júnímánaðar gekk hann í hvassa norðanátt með kulda og úrkomu. Mikill snjór féll til fjalla, allt niður í 150 m hæð, en regn og bleytuhríð lamdi á láglendi. Ekki er vitað um skaða í bænum þessa sex daga en
eitthvað mun sauðfé hafa fennt í Fljótum.

Af fuglum í Siglufirði er það helst að frétta að tvö lómahreiður flæddu, annað í Hólsdal og hitt í Kílatjörn við flugvöll, og tvö flórgoðahreiður virðast einnig hafa farið undir vatn í sömu tjörn. Álft á Kílahólma yfirgaf þrjú egg sín í lok óveðursins – en það þykir sérkennilegt af svo stórum og sterkbyggðum fugli. Þó má ætla að siglfirsku varpálftirnar
séu komnar nokkuð á þrítugsaldur og gæti ellin hafa valdið því að kellunni þraut úthald. Ekki er vitað beinlínis um aðrar tegundir – en krían og sumar vaðfuglategundir virðast hafa spjarað sig sæmilega. En nokkuð hefur veðurvonskan spillt æðarhreiðrum – það er þó ekki fullkannað þegar þetta er skrifað 13. júní.
Fréttin uppfærð 5. júlí:

Á síðustu dögum hefur það orðið ljóst að bæði lómapörin hafa verpt aftur og liggja mæður á eggjum sínum í Hólsdal og Kílatjörn – og flórgoði á Kílatjörn hefur sést með einn unga. Álftin sneri þó ekki aftur á varpdyngju sína. Æðarfuglar leiddu út fjölda unga og talsvert ber á liitlum kríuhnoðrum á stöku stað. -ök

Frekari upplýsingar um siglfirsku álftirnar, lómana og flórgoða er að finna hér:
https://siglofuglar.wordpress.com/greinar/
https://siglofuglar.wordpress.com/fuglafrettir/

Forsíðumynd/ Lómur á hreiðri í Hólsdal – mynd: Lydia Athanasopoulou