Laugardaginn 24 júlí sl. kom undirritaður að munna Múlaganganna frá Ólafsfirði  kl. 15:45, rautt ljós blikkaði við gangnamunnann og lokunarslá var fyrir hægri akrein. Á upplýsingaskilti við slána stóð:     LOKAÐ.  SLYS – MENGUN.

Nokkrir bílar biðu við innkeyrsluna og virtist vera nokkur órói og stress í mörgum bílstjórum, eins og þeir hafi verið búnir að bíða þar drjúga stund.  Starfs míns vegna hringdi ég í 112, kynnti mig og spurðist fyrir um hvort eitthvert  slys hefði orðið í göngunum. Neyðarvörður kvaðst ekki vita til þess en eftir að hafa spurst nánar fyrir, þá upplýsti hann mig um að sjúkrabíll hefði farið neyðarflutning í gegn um göngin fyrir stuttu. Sennileg ástæða þess að göngin væru lokuð væri sú að hreinlega hefði gleymst að opna aftur.

Gaf hann mér samband við fjarskiptamiðstöð lögreglu sem staðfesti þetta. Í því lyftist lokunarsláin og aðvörun hvarf af skjánum. Mannleg mistök hafa orðið og munu verða. Þá kemur að því sem mér þótti merkilegast. Á meðan ég beið við gangnamunnann, þá tóku sig þrír bílar úr röðinni og var þeim ekið framhjá lokunarbúnaði og rakleitt í göngin. Eins og flestir vita eru Múlagöng einbreið og ekki hægt um vik að snúa þar við, spurði ég því sjálfan mig: Hvaða erindi á fólk svo brýnt að það sé reiðubúið að fórna sér og sínum með því að aka inn í einbreið göng sem eru merkt lokuð vegna slyss?  Að maður tali ekki um ef upp kæmi eldur, þar sem göngin eru klædd að hluta með klæðningu úr plasti sem myndar mjög eitraðan reyk við bruna. Þá er eftir að nefna hversu erfitt yrði fyrir björgunaraðila, slökkvilið og fleiri, að komast að slysstaðnum ef miklum fjölda bíla hefur verið ekið inn þrátt fyrir augljósa lokun.

Vil ég því eindregið hvetja alla þá sem leið eiga um jarðgöng, sérstaklega þau einbreiðu, að virða skilyrðislaust merkingar um lokun.

Vilhelm Anton Hallgrímsson

Slökkviliðsstjóri

Dalvíkurbyggð