Nýlega komu út tvær bækur í Svíþjóð sem rekja síldveiðisögu Svía við Íslandsstrendur og auðvitað er ekki hægt að komast hjá því að nefna Siglufjörð sem var aðalbækistöð fyrir síldarkaup Svíanna sem og sænska síldveiði báta í áratugi á síðustu öld.
Í báðum bókunum er eigin kafli með heitinu Siglufjörður og þar birtast einnig margar gamlar ljósmyndir úr firðinum fagra. Í annarri bókinni er meira að segja stuttur kafli um Siglfirðing sem hefur verið búsettur í Smögen í yfir 50 ár en þessi kafli heitir: “Ægir Björnsson – en islänning som minns sillepoken.”
Hér er hægt að sjá stutta grein á Trölli.is um Ægir Björnsson.
Greinarhöfundur kom við á Síldarminjasafni Íslands og færði safninu þessar bækur að gjöf sem fulltrúi og nýkjörinn ritari fyrir hið gamla og rótgróna Sænska efnahagsfélag sem var stofnað 1933 en það heitir “Félagsskapur Bohuslänskra sjómanna á Íslandsmiðum” (Bohusläns Islandsfiskare ekonomiska förening) “BIFF.”
Félagið styrkti útgáfu beggja bókanna.
Steinunn M Sveinsdóttir sviðsstjóri Síldarminjasafnsins þakkaði fyrir góða gjöf og benti á að utanhúss sýningin “Á leið til Íslands” sem BIFF félagið styrkti og setti upp í samvinnu við hið stóra og mikla safn Bohuslän museum og Síldarminjasafn Íslands í fyrra sumar er aftur komin á bryggjuna fyrir neðan Salthúsið.
En þar er í stuttu máli og myndum rakin sagan um reknetaveiðar Svía við Íslandsstrendur.
Í bókinni “Leitin að silfri hafsinns” er gerð ýtarleg grein fyrir mikilvægi síldveiða fyrir líf og hagi fólk á vesturströnd Svíþjóðar.
Þessi furðulegi fiskur hefur komið og svo síðan látið sig hverfa úr skerjagarðinum við vesturströndina 4-5 sinnum frá 14 öld og síðasta síldveiðitímabilið endaði þar í kringum 1908 og þá fórum menn að forvitnast fyrir alvöru um tilvist hinnar umtöluðu feitu Íslandssíldar.
Bókin er skemmtilegt fræðirit með góðri blöndu af staðreyndum og síldveiðisögum sem lýsa vel hversu erfiðar og áhættusamir þessi þriggja mánaða síldveiðitúrar til Íslands voru á sínum tíma. Þess má geta að í bókinni er rætt um áform um að byggja Sænskt sjómannaheimili hér á Sigló sem ekkert varð úr áður en síldin lét sig hverfa. Þetta var á sínum tíma mikið hjartans mál því talið er að um 9.000 sænskir sjómenn hafi komið á síldveiðar við Ísland á síðustu öld.
Einnig er fjallað um hin miklu umsvif sem Svíar höfðu við Krossanes í Eyjafirði í byrjun 20 aldarinnar.
Þá er einnig minnst á reknetaveiði með söltun um borð í stærri stálskipum sumarið 1967 og 1968 en þær gengu frekar brösullega og voru þetta síðustu tilraunir svía í að eltast sjálfir við silfur hafsins hér á norðurhjara veraldar.
Hin bókin er hluti af fræðslubókaseríu sem heitir Träbiten nr. 182 en það er félagskapurinn Allmogebåtar sem árlega gefur út nokkur vönduð litprentum hefti þar sem að mestu leiti er fjallað um gamla trébáta, seglagerð o.fl. Fyrri hluti bókarinnar fjallar um fallegar vatnslitamyndir og teikningar eftir frægan listamann sem heitir Adolf Nordling og síðan er farið út í langan kafla sem heitir Islandsfisket og þar eru margar sögur og ljósmyndir um Siglufjörð.
Það er öllum frjálst að koma á Síldarminjasafnið og skoða þessar bækur sem og sýninguna Á leið til Íslands endurgjaldslaust.
HÉR ER HÆGT AÐ FINNA AÐRAR GREINAR EFTIR JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON
Lifið heil & Bestu kveðjur
Nonni Björgvins
Texti og ljósmyndir:
Jón Ólafur Björgvinsson
Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá eigendum.