Í tilefni 100 ára kaupstaðarafmælis Siglufjarðar er nú verið að vinna ljósmyndabók með myndum frá elstu tíð til nútímans. Hér er um að ræða úrval fjölbreyttra ljósmynda, sem valdar eru af mikilli kostgæfni og sýna lífið á staðnum í gegnum tíðina. Hverri mynd fylgir stuttur hnitmiðaður texti, þannig að þetta er í raun söguyfirlit, þótt stiklað sé á stóru. Alls verða um 140 viðfangsefni í bókinni. Textinn verður bæði á íslensku og ensku.
Myndirnar í bókinni koma víða að, frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar, einkasöfnum, Ljósmyndasafni Íslands, Ljósmyndasafni Reykjavíkur og Minjasafninu á Akureyri.
Þau Örlygur, Steinunn og Anita hafa deilt með sér textavinnunni, en textinn er að mestur tilbúinn til þýðingar yfir á ensku.
“Þetta er frekar stórt aukaverkefni, sem kom upp í samtali við kaffiborðið, mjög spennandi og skemmtileg vinna” segir Anita og brosir.
Áætlað er að bókin komi út í október næstkomandi, vinnuheitið er “Siglufjörður” en endanlegt nafn er ekki alveg ákveðið.
Útgefandi er Síldarminjasafn Íslands, og bókin verður gjöf safnsins til Siglufjarðar. Hægt verður að kaupa eintök af bókinni.
Einnig má að lesa brot úr verkinu o.fl. á vef Síldarminjasafnsins hér.
Myndir og texti: Gunnar Smári Helgason