Siglufjörður hefur verið iðandi af lífi yfir páskahelgina.
Þórarinn Hannesson tók saman það helsta sem verið hefur í boði og segir hann meðal annars “Siglufjörður – Þvílíkur bær, þvílíkt samfélag!!
Í þessu 1200 manna samfélagi hér á Siglufirði er þvílíkt iðandi mann- og menningarlíf þessa dagana að fátt stenst þann samanburð. Ekki skemmir svo fyrir að veðurguðirnir leika við hvern sinn fingur – Hitinn um 15 gráður og glampandi sólskin.
Eins og alltaf um páska iða skíðabrekkurnar af lífi, þar hafa verið vel á annað þúsund manns að skíða síðustu daga. Auk þess var hér skemmtilegt blakmót, kajakræðarar á ferð um fjörðinn, yoga tímar, þrek tímar, sullað og synt í sundlauginni og fjöldi fólks á skokki og göngu.
Í menningarlífinu má nefna tvær ljósmyndasýningar, listgjörningadagskrá, útgáfuhóf, fjölbreytta tónleika og ljóðalestur.
Hótelin eru þéttsetin og fjöldi veitingastaða er opinn þar sem boðið er upp á fjölbreytta rétti: spriklandi sjávarfang, geggjaða rétti frá Marokkó, steikur af ýmsu tagi að ógleymdum hamborgurunum og pitsunum sem fást í ýmsum útfærslum. Svo má ekki gleyma einu besta bakaríi landsins!
Við höfum okkar eigin bruggverksmiðju sem býður upp á kynningu og smökkun og á öldurhúsum er t.d. í boði bingó, pub-quis og lifandi tónlist. Útvarp Trölli, sem að sjálfsögðu er á Siglufirði, sendir svo út tónlist og ýmiskonar skemmtilegheit allan sólarhringinn
Já, hér er gott að vera og njóta .”
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá mannlífinu á Sigló um helgina.

Alþýðuhúsið var mannmargt um helgina, fjöldinn allur af gestum kom þar við að njóta alls þess sem í boði var

Alþýðuhúsið

Unnar Örn J. Auðarson opnaði sýningu í Kompunni á föstudaginn langa

Fullt var út úr dyrum í Alþýðuhúsinu

Aðalheiður Sigríður Eysteinsdóttir

Ingvar Erlingsson opnaði sína fyrstu einkasýningu á Torginu, myndirnar eru einkar frumlegar enda teknar með dróna og eru til sýnis á borðunum

Yfir 100 manns komu á opnunina

Sauðfé frá Molastöðum í Fljótum prýða salernishurðirnar á Torginu

Ingvar Erlingsson og Daníel Pétur Baldursson ánægðir með viðtökurnar

Þórarinn Hannesson hélt útgáfuhóf í Ljóðasetri Íslands. Hér er Þórarinn að lesa upp úr nýútkomnu örsögusafni sínu sem hefur að geyma 50 skondnar sögur af Siglfirðingum fyrr og nú. Þessi bók er sú sjötta í röðinni. Hefur hann því skrásett alls 300 sögur sem allar eiga það sameiginlegt að tengjast Siglufirði

Það var mikið hlegið þegar Þórarinn var að lesa upp úr söguheftinu sem er að þessu sinni fagurgult

Ljósmyndaklúbbur Fjallabyggðar er með ljósmyndasýningu í Ljóðasetri Íslands til styrktar setrinu