Siglufjörður hefur verið iðandi af lífi yfir páskahelgina.
Þórarinn Hannesson tók saman það helsta sem verið hefur í boði og segir hann meðal annars “Siglufjörður – Þvílíkur bær, þvílíkt samfélag!!
Í þessu 1200 manna samfélagi hér á Siglufirði er þvílíkt iðandi mann- og menningarlíf þessa dagana að fátt stenst þann samanburð. Ekki skemmir svo fyrir að veðurguðirnir leika við hvern sinn fingur – Hitinn um 15 gráður og glampandi sólskin.
Eins og alltaf um páska iða skíðabrekkurnar af lífi, þar hafa verið vel á annað þúsund manns að skíða síðustu daga. Auk þess var hér skemmtilegt blakmót, kajakræðarar á ferð um fjörðinn, yoga tímar, þrek tímar, sullað og synt í sundlauginni og fjöldi fólks á skokki og göngu.
Í menningarlífinu má nefna tvær ljósmyndasýningar, listgjörningadagskrá, útgáfuhóf, fjölbreytta tónleika og ljóðalestur.
Hótelin eru þéttsetin og fjöldi veitingastaða er opinn þar sem boðið er upp á fjölbreytta rétti: spriklandi sjávarfang, geggjaða rétti frá Marokkó, steikur af ýmsu tagi að ógleymdum hamborgurunum og pitsunum sem fást í ýmsum útfærslum. Svo má ekki gleyma einu besta bakaríi landsins!
Við höfum okkar eigin bruggverksmiðju sem býður upp á kynningu og smökkun og á öldurhúsum er t.d. í boði bingó, pub-quis og lifandi tónlist. Útvarp Trölli, sem að sjálfsögðu er á Siglufirði, sendir svo út tónlist og ýmiskonar skemmtilegheit allan sólarhringinn
Já, hér er gott að vera og njóta .”
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá mannlífinu á Sigló um helgina.