Í gær ,miðvikudaginn 14. september tók Sigríður Ingvarsdóttir formlega við sem bæjarstjóri Fjallabyggðar.
Að því tilefni birti hún eftirfarandi ávarp til íbúa Fjallabyggðar.
“Kæru íbúar Fjallabyggðar
Í dag er fyrsti formlegi starfsdagur minn sem bæjarstjóri Fjallabyggðar. Ég tek auðmjúk og stolt við þessu starfi og er þakklát fyrir það mikla traust sem mér er sýnt. Ég finn jafnframt til mikillar ábyrgðar, því starf bæjarstjóra er viðamikið og fjölbreytt og kemur inn á flest svið samfélagsins. Bæjarstjóri er æðsti yfirmaður stofnana Fjallabyggðar, en þar starfa í heildina um 230 einstaklingar. Bæjarstjóri ber einnig ábyrgð á að innviðir virki fyrir íbúa bæjarfélagsins, en hér eiga núna um 1980 einstaklingar lögheimili.
Þrátt fyrir að í dag sé fyrsti formlegi starfsdagurinn minn, þá er ég búin að vera að vinna í mörgum málum fyrir bæjarfélagið frá því að ég var ráðin og hef verið með ákveðna viðveru á bæjarskrifstofunni í hverri viku. Ég taldi að gamni mínu þá fundi sem skráðir eru í dagatalið mitt frá því að ég fékk netfang hjá Fjallabyggð og sú talning leiddi í ljós að ég hef þegar setið 78 boðaða fundi fyrir bæjarfélagið, fyrir utan alla óformlegu fundina og símtölin. Ég hef verið að koma mér inn í hina ýmsu málaflokka auk þess sem ég hef þegar heimsótt allmargar stofnanir bæjarins.
Ég hef einlægan vilja, metnað og ástríðu til að standa mig vel í starfi. Í góðri samvinnu við öfluga bæjarstjórn, frábært starfsfólk og meiriháttar íbúa, efast ég ekki um að saman náum við að koma góðum hlutum í verk og stuðla að því að Fjallabyggð verði enn betri staður til að búa á.
Við hjónin hlökkum til komandi tíma í Fjallabyggð og uppbyggjandi samstarfs og samskipta við ykkur.
Kveðja,
Sigríður Ingvarsdóttir
Netfang: sigga@fjallabyggd.is”
Mynd/ Björn Valdimarsson
Úr myndaröðinni FÓLKIÐ Í FJALLABYGGÐ á https://bjornvald.is