Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi í gær, 17. júní hvað það merkir að vera þjóð og hvaða merkingu þjóðhátíðardagur Íslands hefur í samtímanum, í ávarpi sínu á Austurvelli.

Hún velti því upp að faraldurinn hafi mögulega gert okkur að meiri þjóð en við höfum lengi verið og hvernig við sem búum í þessu samfélagi tengdumst áþreifanlegum böndum og sérhver þráður hafi skipt máli fyrir okkar daglega líf. Árangur Íslendinga væri sigur þekkingarleitar, verkvits og samstöðu:

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Þessir þræðir: Velferðarkerfi sem virkar. Atvinnuleysistryggingasjóður sem bregst við þegar fólk missir vinnuna. Heilbrigðiskerfi sem þjónar öllum. Skólar sem kappkosta að taka utan um börnin okkar og unga fólkið, veita þeim menntun og stuðning þegar á bjátar.“

Forsætisráðherra talaði um að síðustu 15 mánuðir hefðu reynst erfiðir en um leið lærdómsríkir vegna þess að þeir hefðu minnt okkur á að samfélag er ekki aðeins orð heldur á hvaða átt við nálgumst það að vera til ásamt öðrum. Og framundan væru krefjandi tímar sem krefðust svara um hvernig samfélag við viljum móta í framtíðinni og hvað við viljum gera til að svo megi verða.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra: „Nú er framundan tími viðspyrnu þar sem við munum í senn takast á við stórar áskoranir og byggja upp Ísland. Við þurfum að halda áfram að takast á við loftslagsvána rétt eins og við tókumst á við faraldurinn; sameiginlega, á grundvelli rannsókna og gagna og með sem bestum upplýsingum til allra þannig að við getum öll lagt okkar af mörkum til að ná árangri í þeirri baráttu. Íslenskt atvinnulíf sýndi frumkvæði og hugvit í faraldrinum og það þarf að beita sér með sama hætti fyrir grænum lausnum sem hjálpa okkur í stærsta verkefninu; að skila jörðinni heilli til komandi kynslóða.“

Forsætisráðherra sagði að þótt Íslendingar væru ólíkir og ættu ólíkar sögur og aðstæður þá væru þeir hluti af sömu heild, hluti af íslenskri þjóðarsögu, hluti af hinum íslenska samfélagsvefnaði. Og vefnaður sem væri úr margs konar þráðum og með mörg og ólík mynstur yrði slitsterkari en sá sem væri einsleitur og fábreyttur.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Við erum eins og heimsþorp á nyrsta hjara, um land allt má finna fólk frá öllum heimshornum sem hefur komið og ílengst og vinnur ótrúlegustu störf og sinnir fjölbreyttum samfélagsskyldum. Það fléttar sína þræði saman við innlendan vefnað þannig að úr verður enn fegurri mynd.“

Ávarp forsætisráðherra á 17. júní 2021