Silja Rós gaf út lagið Share U föstudaginn 28. apríl.

Silja Rós hefur starfað sem söngkona og lagahöfundur seinustu 11 ár og samið tónlist í yfir 16 ár. Hún starfar líka sem leikkona og handritshöfundur, en hún er um þessar mundir að ljúka skrifum á sinni fyrstu sjónvarpsseríu sem fer í tökur í sumar og vinna að sinni þriðju plötu sem er væntanleg á árinu.

Útgáfan hefst með grúví sumarsmell sem ber heitið “Share U” og er kominn í spilun á FM Trölla.

Tónlist Silju Rósar má lýsa sem jazz skotið pop undir áhrifum frá R&B.

Lagið á Spotify

„Ég samdi lagið í Kaupmannahöfn þar sem ég var búsett í tvö ár. Lagið varð til í svefnherberginu mínu á lítið midi hljómborð í miðju covid þar sem vinnan færðist heim. Ég man skýrt eftir því að akkúrat þennan dag langaði mig ekki að semja ástarlag og ætlaði að semja um eitthvað allt annað. Textinn byrjaði að myndast og ég náði að forðast ástina þar til ég lenti í rímna flækju og allt í einu kom setning sem leiðbeinti laginu beint aftur á braut ástarinnar. Ég dvaldi ekkert lengi við það og hugsaði bara, jæja þá er þetta ástarlag og leyfði því bara að flæða náttúrulega.“

Silja Rós og Magnús Dagsson hófu upptökur og útsetningar í Kaupmannahöfn en luku upptökum í stúdíóinu sínu á Íslandi. Magnús Orri sá um upptökur, mix og spilaði inn öll hljóðfærin nema trommurnar sem voru í höndum Bergs Einars. Skonrokk masteraði.

„Það er mikil gjöf að geta starfað með kærastanum sínum og samstarfið hefur hingað til gengið mjög vel þrátt fyrir að við séum bæði með mjög sterkar skoðanir hvað varðar útsetningar og erum ekkert alltaf sammála. Þegar við byrjuðum að taka upp Share U settum við okkur eina reglu, að við myndum hafa gaman að öllu ferlinu og bara vinna í laginu þegar við værum bæði með góða orku til að skapa. Við settum okkur enga tímapressu og eyddum miklum tíma í að dúlla okkur við radd útsetningar sem eru undir áhrifum frá Jacob Collier og Moonchild. Þetta var ótrúlega skemmtilegt ferli og mér þykir þess vegna enn vænna um lagið.“


Aðsent