Það var í senn léttleiki og hátíðarbragur sem einkenndi útskriftarhátíð SÍMEY á dögunum. Að þessu sinni útskrifuðust 112 nemendur úr fjölbreyttum námsleiðum og tveimur raunfærnimatsverkefnum.
Úr vottuðu námi brautskráðust nemendur úr opinni smiðju FABLab, opinni smiðju málmsuðu, opinni smiðju – listasmiðju málun, opinni smiðju – listasmiðju teikningu, opinni smiðju textíl, „Help Start“ enskunámi, sölu-, markaðs og rekstrarnámi, leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú, félagsliðabrú og bókhaldsnámi (í samvinnu við Tölvufræðsluna á Akureyri).
Einnig luku nemendur raunfærnimati í fisktækni (fiskvinnsla og veiðar) og iðngreinum.
SÍMEY er nú á sínu átjánda starfsári. Á síðasta ári voru þátttakendur eða þeir sem nýttu sér þjónustu SÍMEY um 4.700. manns. Starfsmenn SÍMEY eru að jafnaði 12 og fyrir miðstöðina vinna allt að 140 verktakar í skemmri eða lengri tíma.
Uppskerudagur
Valgeir B. Magnússon framkvæmdastjóri SÍMEY orðaði það svo að á þessum fallega degi væri nemendur að uppskera. „Þið hafið lagt á ykkur mikla vinnu, farið út fyrir þægindarammann og dagurinn í dag gæti líka verið dagur nýrra markmiða og væntinga. Þið hafið bætt við ykkur þekkingu og öðlast hæfni og getu til að að takast á við ný verkefni og án efa skapað ykkur ný tækifæri í lífinu. Dagurinn í dag er líka dagur stoltsins. Það getur verið mikið átak að taka upp þráðinn og hefja nám eftir hlé, það krefst dugnaðar og seiglu. Fólk þarf að endurskipuleggja líf sitt, reyna á nýja færni og stundum yfirvinna huglæga þröskulda sem geta fylgt okkur. Fyrir okkur sem vinnum á þessum vettvangi þá er þessi dagur líka afar mikilvægur en á þessum degi kristallast tilgangurinn með starfi okkar, þegar við finnum, heyrum og sjáum tilganginn með þessu öllu, sjáum þær breytingar sem hafa orðið hjá ykkur,“ sagði Valgeir.
Nýjar áskoranir í síbreytilegum heimi
Í síbreytilegum heimi þarf að takast á við nýjar áskoranir á hverjum degi, sagði Valgeir, stöðugt þurfi að nema og víkka skilning fólks á heiminum. „Þegar talað er um að nám eigi sér stað er oft átt við breytingu á hugarfari, nýja sýn og færni og þá skiptir ekki máli hvort um er að ræða stórvægilega hluti eða hversdagslega, aðalatriðið er að viðkomandi gerði, upplifði og uppgötvaði eitthvað nýtt. Nútímasamfélag býður okkur mannfólkinu að endurskoða reglulega hvað við viljum verða þegar við verðum stór. Við erum ekki lengur með fyrirfram ákveðinn starfsframa sem gildir í hálfa öld eða fram að ellilífeyrisárunum. Með vaxandi áherslu á nám á fullorðinsárum hefur hugtakið ævinám fest sig frekar í sessi. Við skiljum nú betur en nokkurn tíma áður að sá lærir sem lifir. Það sem einkennir hinn fullorðna námsmann er seigla, staðfesta og dugnaður. Að gefast ekki upp þó á móti blási. Það sem einkennir fullorðið fólk sem hefur byggt upp þessa færni er að hafa trú á eigin getu og líta jákvæðum augum á lífið. Það er ábyrgðarfullt, sjálfstætt og ákveðið í að ná sínum markmiðum og geta tekist á við streitu án þess að bugast. Þessir eðlisþættir hjálpa fólki að takast á við mótlæti og vandamál með jafnaðargeði og hjálpar því að ráða við neikvæða þætti í sínu lífi,“ sagði Valgeir.
Í upphafi og lok útskriftarinnar í dag fluttu Þórhildur Örvarsdóttir sópransöngkona og Helga Kvam píanóleikari þrjú íslensk sönglög.
Auk Valgeirs fluttu ávörp við útskriftina Karl Frímannsson sviðsstjóri fræðslusviðs Akureyrarbæjar og þrír útskriftarnemar; Eygerður Björg Þorvaldsdóttir, Hólmfríður Sveinmarsdóttir og Haraldur Már Pétursson.
Heimild og mynd: Kaffið.is