Sitt lítið af hverju nefnist ný nótnabók/söngbók, með u.þ.b. 40 frumsömdum lögum eftir Elías Þorvaldsson.
Í formálsorðum höfundar segir meðal annars:
„Eftir að hafa starfað við tónlistarkennslu í áratugi, einkum með börnum og unglingum, þá kom mér til hugar að gaman gæti verið að taka saman eitthvað af því efni sem mér hefur fundist áhugavert að vinna með í gegnum tíðina. Þetta eru einna helst frumsamin lög sem mér finnst hafa höfðað til yngra fólksins okkar. Sem dæmi má nefna, að þarna eru lög við ljóð Jóhannesar úr Kötlum um Bakkabræður, ásamt lögum við ljóð Þórarins Eldjárns. Við þessa samantekt bættust síðan önnur lög sem mér þykir vænt um og samin hafa verið við hin ýmsu tilefni. Þá bregður þarna fyrir nokkrum textum sem ég hef hnoðað saman.
Þetta hefti er nótnasett með laglínum, textum og hljómum. Sum laganna eru einnig útsett fyrir fleiri raddir. Með þessu hefti fylgir USB-minnislykill með tvöföldu tengi, en hann hefur að geyma hljóðskrár með mörgum laganna og eru tilvísanir í hann á nótnablöðunum.
Þessar hljóðskrár eru frá ýmsum tímum, þær elstu afritaðar af gömlum kassettum en aðrar eru nýrri. Á lyklinum má einnig finna allt efni þessa heftis sem PDF skjöl sem skoða má í tölvu og nýrri snjalltækjum ásamt þeim möguleika að geta spilað hljóðskrárnar.”
Höfundur vill þakka þeim fjölmörgu sem komið hafa að þessu verkefni með honum og vonar að einhverjir hafi af þessu svolitla ánægju og kannski eitthvert gagn. Þá sé markmiðinu náð.
Aðsent.