Jón Dýrfjörð gaf sjálfsmynd Hafliða Guðmundssonar á sýningu Ljósmyndaklúbbs Fjallabyggðar til styrktar Ljóðasetri Íslands.

Sjálfsmyndina teiknaði Hafliði 26. júní 1980. Hafliði kenndi i Gagnfræðaskóla Siglufjarðar um langt árabil og er mörgum árgöngum góðu kunnur. Hann hafði gaman af því að teikna og gerði margar skopmyndir af samborgurum sínum.

Það var svo að Jón Dýrfjörð fékk tíu myndir að láni hjá Hafliða á vinnustað sinn til að létta mönnum lundina, en þeir Hafliði voru góðir kunningjar. Kunningsskapur þeirra hófst þegar Hafliði kenndi honum á sínum tíma og báðir höfðu þeir sameiginlegt áhugamál, stærðfræði, efnafræði og eðlisfræði.

Sjálfsmynd Hafliða Guðmundssonar

Þegar myndirnar höfðu hangið upp til sýnis á vinnustað Jóns í nokkurn tíma falaðist hann eftir myndunum til kaups. Tók Hafliði það ekki í mál og var það ekki rætt frekar. Síðan var það að Hafliði mætti heim til Jóns og spurð hann hvort hann væri enn til í að kaupa myndirnar og Jón var fljótur til svars og játaði því.

Hafliði spurði síðan hvað hann væri til í að borga, “þú ert listamaðurinn og ræður því” svaraði Jón. Hvað segir þú um 100.000 spyr Hafliði, Jón var fljótur til svars og neitaði því og segir “það er alltof lítið”.  Fóru þeir þá að  prútta, Jón upp með verðið og Hafliði tregur til. Þegar Jón komst upp í 300.000 kr. sagði Hafliði “hærra fer ég alls ekki Jón”.

Var þá salan handsöluð og myndirnar hafa verið í eigu Jóns Dýrfjörð síðan.

“Ég hefði farið hærra” sagði Jón Dýrfjörð í viðtali við Trölla.

Myndin verður til sölu á sýningu Ljósmyndaklúbbsins á meðan á sýningu stendur og verður seld hæstbjóðanda.