Á sjómannadaginn, sunnudaginn 6.júlí, verður hægt að lifa sig inn í heim síldaráranna í gegnum leikritið Á frívaktinni í uppfærslu Leikfélags Sauðárkróks. Leikritið verður sýnt á sjónvarpsstöðinni N4 en í því er að finna fjölda fallegra og fjörugra sjómannalaga.

Leikfélag Sauðárkróks fagnar 80. ára afmæli sínu á þessu ári. Af því tilefni heimsfrumsýndi leikfélagið nýtt verk í maí sem heitir Á frívaktinni. Höfundur þess og leikstjóri er Pétur Guðjónsson.

Æfingarferlið og aðdragandi að sýningunni hefur verið óvenju langt þar sem byrjað var á verkinu í fyrra. Alls verður verkið sýnt 13 sinnum en um sjómannadagshelgina eru síðustu sýningarnar í félagsheimilinu Bifröst á Sauðarárkróki. Þeir sem ekki eiga heimangengt á sýningarnar geta upplifað sjóarastemminguna heima í stofu að kvöldi sjómannadagsins því verkið verður sýnt á N4 sjónvarpsstöðinni kl. 20.

Sögusvið verksins er sjávarþorp á Íslandi á tímum síldaráranna. Aðalsöguhetjan Daníel, tvítugur piltur sem dreymir um að komast á sjó því hann vill verða ríkur og koma undir sig fótunum. Ástin kemur líka við sögu og aðrir íbúar í þorpinu og snertir sagan ýmsa strengi, og er bæði falleg, sorgleg og fjörug. Dæmi um þekkt sjómannalög sem heyrast í verkinu eru t.d. Einsi kaldi, Þórður sjóari, Ship og hoj, Síldarstúlkan o.fl.

Athugið að aðeins er um þessa einu sýningu á verkinu á N4 að ræða.

Myndir/aðsendar