Dagskrá um sjómannadagshelgina í Ólafsfirði hefur nú litið dagsins ljós og má segja að hún sé hin glæsilegasta. Það er Sjómannadagsráð Sjómannafélags Ólafsfjarðar sem hefur haft veg og vanda að gerð dagskrárinnar sem höfðar til fólks á öllum aldri.
Sjómannadagurinn hefur í langan tíma verið haldinn hátíðlegur í Ólafsfirði enda mikilvægur í augum íbúa svæðisins og sjómennskan nátengd sögu Ólafsfjarðar. Sjómannadagsráð Ólafsfjarðar hefur alla tíð lagt mikið upp úr því að halda veglega hátíð í tilefni sjómannadagsins og stendur hátíðin yfir í þrjá daga. Þannig hefur hátíðin markað sér sérstöðu á Norðurlandi, enda kemur fólk víða að til að skemmta sér og njóta dagsins í Ólafsfirði.
Dagskráin hefst strax á föstudaginn 4. júní en þann dag verður bein útsending á Fm95Blö (101,7) og Leirdúfuskotmót sjómanna, vanur og óvanur.
Á laugardeginum 5. júní verður mikið um dýrðir en dagurinn verður tekinn snemma með dorgveiðikeppni fyrir börnin við höfnina. Allan daginn verður eitthvað um að vera. Kappróður, keppni um Alfreðsstöngina, tímaþraut og trukkadráttur. Ramminn býður upp á sjávarréttasúpu. Klukkan 16:00 hefst svo knattspyrnuleikur KF og Þróttar Vogum á Ólafsfjarðarvelli. Knattleikur Sjómenn – Landmenn kl. 17:00 og að lokum mun Ingó Veðurguð stjórna brekkusöng við Tjarnarborg frá kl. 21:00
Sjómannadagurinn 6. júní hefst svo með skrúðgöngu frá hafnarvoginni að Ólafsfjarðarkirkju þar sem haldin verður hátíðarmessa og sjómenn verða heiðraðir. Fjölskylduskemmtun verður svo við Tjarnarborg kl. 13:30 þar sem framkoma Ingó Veðurguð, Pétur Jóhann, Ari Eldjárn og Auddi og Steindi. Einnig verða hoppukastalar fyrir börnin og sölubásar. Slysavarnardeild kvenna verður með kaffisölu í Tjarnarborg frá kl. 14:00-17:00.
Hátíðinni lýkur með árshátíð sjómanna í íþróttahúsinu.
Dagskrá hátíðarinnar er hægt að nálgast hér og á Facebook síðu Sjómannadagsins í Ólafsfirði
Íbúar Fjallabyggðar eru hvattir til þátttöku í hátíðarhöldunum.
Mynd/Guðný Ágústsdóttir