Bann við bruna svartolíu á íslensku hafsvæði er afar aðkallandi.

Ástæða þess að útgerðarfyrirtæki á borð við Holland America Line og Carnival Corporation þráast við að brenna gríðarlega mengandi eldsneyti á íslensku hafsvæði og annars staðar á norðurslóðum er hversu ódýrt það er.

Nýverið heimsótti skemmtiferðaskipið MS Rotterdam Akureyri, Ísafjörð og Reykjavíkurhöfn. Um borð var gríðarlegt magn af svartolíu, sem er þykk og seigfljótandi drulla líkt og malbik. Hefði MS Rotterdam strandað eða lent í árekstri nærri Íslandsströndum hefði tjónið orðið gríðarlegt, e.t.v. óbætanlegt enda nær vonlaust að hreinsa svartolíu úr sjó. Skip á borð við MS Rotterdam eru bein ógn við lífríki hafsins. Hollenska útgerðarfyrirtækið Carnival græðir á að taka þá áhættu. Þar að auki eru áhrif bruna svartolíu á heilsufar manna afar neikvæð og eftirlit með mengun ábótavant. Á Seyðisfirði hafa íbúar þrýst á að fram fari loftgæðamælingar til að mæla umfang mengunar af völdum skipa. Brýnt er að sams konar mælingar verði gerðar þar sem komur skemmtiferðaskipa eru tíðar.

Hagsmunum Íslands ógnað
Í skýrslu utanríkisráðuneytisins frá árinu 2016 „Hagsmunir Íslands á norðurslóðum, tækifæri og viðsjár” segir,: „Helstu viðsjár lúta fyrst og síðast að hinu margbrotna og viðkvæma umhverfi og vistkerfi á norðurslóðum. Hér hefur Ísland gríðarlegra hagsmuna að gæta. Þannig gæti olíuslys eða mengunarslys af öðrum toga haft geigvænleg áhrif á sjávarauðlindir landsins og þar með efnahag.“ Enn fremur segir í skýrslunni: „Vaxandi sókn í náttúruauðlindir og aukinni skipaumferð fylgja margvíslegar hættur sem kalla á viðbúnað vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem ríkja á svæðinu. Umhverfinu getur stafað ógn af þessum umsvifum og er umhverfisöryggi svæðisins eitt brýnasta hagsmunamál Íslendinga – þjóð sem byggir afkomu sína að verulegu leyti á sjálfbærri nýtingu auðlinda lands og sjávar, og þá ekki síst viðbrögð og varnir gegn bráðamengun.“ Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO), sem heyrir undir Sameinuðu þjóðirnar, hefur bannað svartolíu í Suðurhöfum sem og á viðkvæmum hafsvæðum eins við Svalbarða. IMO rannsakar nú hvernig megi draga úr þeirri áhættu sem fylgir bruna og flutningi á svartolíu og þá einnig hvort banna eigi notkun svartolíu í norðurhöfum. Á hinn bóginn munu slíkar aðgerðir ekki ná til íslenskra hafsvæða enda liggur Ísland sunnan við norðurheimskautsbauginn. Sams konar bann ætti að sjálfsögðu að gilda á íslensku hafsvæði sem og annars staðar í norðurhöfum í kjölfar ákvörðunar IMO. Næsta ár mun Ísland taka við formennsku Norðurskautsráðsins, sem hefur skilgreint alvarlegt mengunarslys sem helstu ógnina við lífríki norðursins.

Ódýrasta eldsneytið
Ástæða þess að útgerðarfyrirtæki á borð við Holland America Line og Carnival Corporation þráast við að brenna gríðarlega mengandi eldsneyti á íslensku hafsvæði og annars staðar á norðurslóðum er hversu ódýrt það er. Í fyrra námu tekjur Carnival 2,7 milljörðum bandaríkjadala. Á hinn bóginn varði fyrirtækið 500 milljónum dollara til markaðsmála, m.a. til að laða ferðamenn hingað til lands. Það er sjálfsögð krafa að Carnival hætti að brenna svartolíu og taki þannig ábyrgð á að vernda þá náttúrufegurð sem það selur ferðamönnum. Ekkert stendur í vegi fyrir því að skipta yfir í léttara eldsneyti sem mengar mun minna ef slys ber að höndum. Það hafa önnur útgerðarfyrirtæki gert og það getur Carnival Corporation einnig gert. MS Rotterdam kemur aftur til Reykjavíkur í lok þessa mánaðar og að óbreyttu munu Íslendingar enn á ný þurfa að reiða sig á guð og lukkuna. Slík staða er óviðunandi.

Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Frétt: Árni Finnsson