Hljómsveitin Skandall er stelpuhljómsveit á Norðurlandi.

Hana skipa þær Inga Rós Suska Hauksdóttir en hún kemur frá Blönduósi og er söngkona, Kolfinna Ósk Andradóttir, frá Ólafsfirði og spilar á hljómborð og fiðlu, Margrét Sigurðardóttir, frá Siglufirði sem spilar á bassa, Sóley Sif Jónsdóttir, frá Skagaströnd og er trommari, hljómborðsleikari og söngkona, og Sólveig Erla Baldvinsdóttir, flautuleikari frá Tjörn á Skaga.

Hljómsveitin var stofnuð í október 2022 fyrir hljómsveitarkeppnina Viðarstauk í Menntaskólanum á Akureyri og hafa þær spilað á ýmsum útihátíðum og viðburðum síðan eins og Fiskideginum mikla á Dalvík og Húnavökunni á Blönduósi svo eitthvað sé nefnt. Þær tóku þátt í forkeppni Menntaskólans á Akureyri fyrir Söngkeppni Framhaldsskólanna árið 2023 með frumsamda laginu Gullfallega mannvera og lentu í þriðja sæti. Þær unnu Viðarstaukinn 2023 í MA með laginu Higher and Higher eftir Jet Black Joe.

Undanfarna mánuði hafa þær verið í hljóðveri á Akureyri að taka upp tvö frumsamin lög, Án þín og Gullfallega mannvera, sem eru nú komin á allar streymisveitur. Þær eru enn í fullu fjöri að semja og má búast við fleiri lögum frá þeim á næstunni.

Forsíðumynd / Mikael Sigurðsson