Um áramót taka gildi ýmsar skattabreytingar sem snerta bæði heimili og fyrirtæki í landinu. Í flestum tilfellum er um að ræða verðlagsuppfærslur, almennt minni en samsvarar verðbólgu liðins árs, en einnig má nefna að stigin voru fyrstu skref að nýju fyrirkomulagi gjaldtöku ökutækja og þá er barnabótakerfið eflt. Hér er fjallað um helstu efnisatriði breytinganna en nánari upplýsingar um einstakar breytingar má finna í greinargerðum viðkomandi lagafrumvarpa á vef Alþingis.

Tekjuskattur einstaklinga

Breytingar verða á tekjuskatti einstaklinga og útsvarsprósentum sveitarfélaga um áramótin í kjölfar þess að undirritað var fjórða samkomulag ríkis og sveitarfélaga um breytingu á fjármögnun lögbundinnar þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Í breytingunni felst varanleg tilfærsla fjármuna sem nema 6 ma.kr. árlega frá ríki til sveitarfélaga. Gagnvart einstaklingum verður því engin breyting á skattbyrði, að því gefnu að sveitarfélag breyti útsvari sínu til samræmis við hækkun hámarksútsvars.

Samkvæmt lögum um tekjuskatt í upphafi hvers árs hækka persónuafslátt og þrepamörk tekjuskatts einstaklinga sem nemur hækkun á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði að viðbættu mati á langtímaframleiðni. Miðað er við 1% árlega aukningu framleiðni og er það mat tekið til endurskoðunar á 5 ára fresti, næst fyrir áramótin 2027-2028. Hækkun vísitölu neysluverðs liggur nú fyrir og nemur hún 7,7% á 12 mánaða tímabili. Heildarhækkun viðmiðunarfjárhæða verður því 8,8%.

Í töflunni hér að neðan má sjá skattprósentur, skattleysismörk, persónuafslátt og þrepamörk fyrir árin 2023 og 2024, en þær eru birtar með þeim fyrirvara að ekki liggur fyrir endanlegt meðalútsvar.

Sjá nánar: Hér

Mynd/Hari