Veðurstofa Íslands vekur athygli á því að áfram er spáð miklum leysingum í hlýindum víða um land.

Má því búast við áframhaldandi hárri vatnsstöðu í ám og lækjum, sér í lagi þar sem hlýtt er í veðri og snjór til fjalla.

Ferðafólk er einnig hvatt til að sýna aðgát við þverun óbrúaðra áa á hálendinu, hvort sem farið er fótgangandi eða í bíl.

Myndin sýnir rennslismælingar í Fnjóská. Toppurinn í nótt fór yfir 25 ára flóð og olli áin skemmdum á veginum við Illugastaði ásamt því að flæða inn á tjaldsvæðið í Vaglaskógi.

Fleiri innviðir hafa orðið fyrir hnjaski fyrir norðan og hættustigi verið lýst yfir á Norðurlandi eystra vegna vatnavaxta.

Vonast er til þess að næsti toppur verði lægri en sá í nótt, en viðbúið er að þetta muni ganga hægt niður á meðan hlýindin vara og nægur snjór er í fjöllum.

Forsíðumynd/ Óðinn Svan Óðinsson