Olíumengun barst inn í höfnina á Siglufirði laust fyrir klukkan 10 í gærmorgun.

Olíuflákinn var þónokkuð stór að umfangi og barst hann úr innsiglingunni og til hafnar. Olían barst áfram með hægum vindi og hafstraumi og endaði í innri höfninni við flotbryggjurnar sem liggja við Norðurtanga.

Starfsmenn Fjallabyggðarhafna urðu varir við olíuna og gerðu slökkviliði viðvart.

Dróni var notaður strax í upphafi til þess að meta umfang mengunarinnar og til þess að átta sig á um hversu stórt svæði væri að ræða.

Þegar olían var komin inn í innri höfnina var ráðist í aðgerðir við að hreinsa sjóinn með aðstoð björgunarsveitarinnar Stráka á Siglufirði. Til þess var notaður mengunarvarnarbúnaður og uppsogsefni en léttabátur björgunarsveitarinnar var notaður til þess að leggja út flotgirðingu sem kom í veg fyrir frekari dreifingu.

Aðgerðir slökkviliðs, starfsmanna Fjallabyggðarhafna og björgunarsveitar tóku drjúga stund og lauk á fjórða tímanum í gær.

Ekki liggur fyrir hvernig olían barst í sjóinn.

Meðfylgjandi myndir frá slökkviliðinu voru teknar í aðgerðum ofangreindra aðila. Myndirnar sýna frá því olíumengunin barst inn til hafnar og þar til búið var að ná henni úr sjónum.