Bergþór Morthens opnar sýninguna “Óhóf” í Söluturninum Aðalgötu 23, Siglufirði á morgun, föstudaginn 20. ágúst.

Á sýningunni eru nýleg verk sem aðallega hafa verið unnin í sóttkvíareinangrun á Siglufirði haustið 2020 og sumarið 2021.

Verkin eru tilraunir með takmörk og möguleika málverksins sem miðils. Verkin verða nokkurs konar átakasvæði þar sem heildin er rofin. Ferli málverksins tekur yfir og efnið tekur stjórn – hleðst upp í nokkurskonar ofhlæði, ofhóf sem gæti skilgreinst sem Gore-rókókó.

Formið víkur fyrir formleysi og verður að nýrri heild með annars konar frásögn. Frásögn sem fjallar ekki síður um, eða vísar til, samhengis utan myndflatarins.

Bergþór Morthens (f. 1979) lauk námi við Myndlistaskólann á Akureyri 2004 og MA námi í myndlist við Valand háskólann í Gautaborg 2015. Hann hefur haldið einkasýningar á Íslandi, í Rúmeníu og Svíþjóð og tekið þátt í samsýningum á Íslandi, Grikklandi, í Svíþjóð, Frakklandi og Danmörku.

Sýningin er opin á laugardag og sunnudag frá kl.13:00 -16:00.