Það var mikið líf og mikið fjör í Bátahúsinu síðastliðinn mánudag þegar nemendur fimmta bekkjar tóku tímabundið yfir starfsemi Síldarminjasafnsins og miðluðu með gestum hluta þess sem þau hafa lært í vikulegri safnkennslu á Síldarminjasafninu á líðandi vetri. Um var að ræða svokallaðan Yfirtökudag, að breskri fyrirmynd; Takeover Day, en á slíkum dögum ganga nemendur í störf starfsfólks safna og miðla þekkingu sinni til gesta.

Um 150 gestir lögðu leið sína á safnið til að heimsækja 5. bekkinga – sem allir stóðu sig með mikilli prýði. Það var einstaklega ánægjulegt fyrir nemendur að geta sýnt foreldrum, ættingjum og samnemendum sínum afrakstur vetrarins og var greinilegt að allir skemmtu sér konunglega
Í aðdraganda Yfirtökudags unnu krakkarnir í sex hópum og sérhæfðu sig í ákveðnu þema. Hóparnir höfðu allir sín vinnuheiti; leiðsögumenn, skrásetjarar, sjómenn, síldarsöltun, díxilmenn og Gústi guðsmaður.


Leiðsögumennirnir höfðu það hlutverk að bjóða gesti velkomna, segja frá Yfirtökudeginum og námi vetrarins á meðan hópar gesta voru leiddir um Bátahúsið, þar sem margt bar fyrir augu.

Skrásetjarar höfðu sérhæft sig í skráningu safngripa, sýndu valda gripi sem skráðir höfðu verið í aðfangabók bekkjarins og fræddu gesti jafnframt um umfang síldarsöltunar á landinu á tuttugustu öld.

Sjómennirnir brugðu sér í hlutverk áhafnarinnar á Tý SK33 og höfðu samið leikþátt um síldveiðar. Skipstjórinn, aflaklóin, sjómaðurinn og netamaðurinn blésu vart úr nös þegar þeir drógu inn nótina – fulla af síld!

Sá hópur sem lagði fyrir sig síldarsöltun lærði réttu handtökin og setti jafnframt á svið síldarsöltun og vinnu á síldarplani. Síldin var kverkuð, söltuð og lögð niður í tunnur.

Starfsmaður á plani passaði að nóg væri af síld í kassanum, salti í bjóðunum og tók tunnur þegar kallið kom.

Díxilmennirnir fengu að spreyta sig á því að slá upp tunnur og slá til tunnur. Þeir sögðu gestum jafnframt frá verkfærum sem notast var við; díxli og drífholti sem og tunnusmíði og þróuninni sem varð frá handsmíðuðum trétunnum til verksmiðjuframleiddra plasttunna.

Sá hópur sem sérhæfði sig í sögu Gústa guðsmanns hafði rannsakað ævi hans og störf og sett upp tímalínu sem sýndi lífsskeið Gústa og ferðalög um heiminn. Þau sýndu gestum Sigurvin, bát Gústa og deildu afritum af biblíumiðum sem Gústi dreifði til gesta og gangandi á Torginu.

Þessu til viðbótar gátu gestir skoðað ýmis verkefni sem krakkarnir höfðu unnið á skólaárinu; myndræna tímalínu um sögu staðarins, ljósmyndagreiningar þeirra og skilgreiningar á hinum ýmsu safngripum svo dæmi séu tekin.

Auk 5. bekkjar hafa nemendur á unglingastigi verið í kennslu í vetur og næstkomandi mánudag munu þau miðla hluta þeirra verkefna sem þau hafa tekið sér fyrir hendur með rafrænum hætti á sínum Yfirtökudegi. Þau munu taka yfir samfélagsmiðla safnsins og meðal annars miðla þekkingu sinni á safnkosti þess og sýningum. Við hvetjum því alla til að fylgjast með Instagram reikningi safnsins (herringmuseum) eftir hádegi mánudaginn 17. maí.

Verkefnið Safn sem námsvettvangur var styrkt af Safnasjóði og Samfélags- og menningarsjóði Siglufjarðar og unnið í góðri samvinnu við Grunnskóla Fjallabyggðar. Vinna vetrarins hefur verið afar gefandi, fræðandi og skemmtileg fyrir bæði nemendur og starfsfólk safnsins, sem bindur miklar vonir við að nemendahópurinn muni nýta sér söfn í auknu mæli í framtíðinni – enda orðin afar vel að sér í þeim fjölbreyttu störfum sem störfum sem söfn sinna.




Meðfylgjandi ljósmyndir tók Gunnlaugur Stefán Guðleifsson.