Menningar- og viðskiptaráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að fara í greiningarvinnu í tengslum við ákveðna þætti fasteignalána til neytenda og neytendalána, með það að markmiði að efla neytendavernd á sviði fjármálaþjónustu og auka fjármálalæsi.

Formaður hópsins er Axel Hall, lektor við Háskólann í Reykjavík. Ráðgert er að starfshópurinn skili greinargerð til ráðherra, með tillögum til úrbóta eftir því sem við á, fyrir árslok 2023.

„Á kjörtímabilinu hef ég ákveðið að beina kastljósinu í enn meiri mæli að samkeppnis- og neytendamálum til hagsbóta fyrir fólk og fyrirtæki í landinu. Nýleg og umfangsmikil skýrsla um gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna, yfirstandandi úttekt á tryggingamarkaðnum sem Neytendasamtökin vinna að með stuðningi ráðuneytisins og þessi starfshópur til að skoða ákveðna þætti fasteignalána til neytenda og neytendalána eru allt liðir í þessari vegferð,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Verkefni starfshópsins er þríþætt. Í fyrsta lagi að greina og kanna hvernig staðið er að upplýsingagjöf og leiðbeiningum gagnvart neytendum í tengslum við lánveitingar út frá mismunandi lánaformum, áhrifum vaxta, verðbólgu o.s.frv.

Í öðru lagi að greina eftirlitshlutverk Neytendastofu og Seðlabanka Íslands gagnvart lánveitendum við framkvæmd lánveitingar til neytenda og eftir að lán er veitt, þ.m.t. við skilmálabreytingar og vanskil.

Í þriðja lagi að skoða hvaða upplýsingum og leiðbeiningum þarf að koma á framfæri til neytenda um mismunandi lánaform, áhrif vaxta, verðbólgu o.s.frv. og hvernig þeim verði miðlað með sem skilvirkustum hætti.

Starfshópinn skipa:

  • Axel Hall, lektor við Háskólann í Reykjavík (formaður)
  • Þórunn Anna Árnadóttir, forstjóri Neytendastofu
  • Rósa Björk Sveinsdóttir, sérfræðingur í Seðlabanka Íslands
  • Einar B. Árnason, hagfræðingur í menningar- og viðskiptaráðuneyti

Mynd/Eydís Eyjólfsdóttir