FM Trölli hefur tekið í spilun nýtt jólalag sem nefnist Kertaljós, lagið er eftir þá feðga Aðalstein Júlíusson og Magnús Orra Aðalsteinsson á Akureyri. Lagið var samið nú í október til að taka þátt í jólalagasamkeppni Rásar 2.

Aðalsteinn samdi lagið en Magnús Orri textann, en hann var valinn ungskáld Akureyrar í fyrra og semur mikið af ljóðum og væntanlega stutt í ljóðabók hjá honum.

Aðalsteinn semur einnig texta og dundar hann sér við að semja lög í frístundum frá vinnunni. Hann er lögregluvarðstjóri á Akureyri, en fjölskyldan bjó yfir 20 ár á Húsavík. Hann er enn í hljómsveit þar sem nefnist SOS og spilar á böllum hér og þar en lítið verið að gera í Covid ástandinu.

Lagið Kertaljós tók Aðalsteinn upp heima hjá sér, er hann þar með heimastúdíó. Öll hljóðfærin eru spiluð inn af honum þar sem hann gaf sér ekki tíma til að fá félaga sína í hljómsveitinni með sér í þetta sinn.

Aðalsteinn reiknar síðan með að læða út í kosmósið einu og einu lagi fyrst hann er kominn inn á Spotify. Það eru nokkur til á lager, mislangt komin. Einnig hefur hann hug á að gefa út plötu innan næstu tveggja ára með aðstoð hljómsveitarinnar SOS.

Aðalsteinn segir jafnframt “Við í löggunni erum síðan með lítið ,,jólalagaband” sem heitir ,,Danshljómsveit Sigurðar Briem”. Við spilum fyrir lítinn hóp vina, vinnufélaga og kunningja á Þorláksmessu og höfum gert sl. 12 ár. Sú litla hljómsveit varð til á lögreglustöðinni á Húsavík fyrir margt löngu. Vonandi náum við að spila eitthvað núna en Covid hefur sett strik í reikninginn hjá okkur síðastliðið ár.”

Kertaljós hefur verið gefið út á Spotify og fleiri streymisveitum í gegn um fyrirtæki í USA, cdbaby.com sem er útgáfufyrirtæki þar og auðveldar mjög að komast að á Spotify og Apple Music osfrv fyrir þá sem eru að prufa sig áfram.

Forsíðumynd tók Aðalsteinn síðastliðið haust á trillunni sinni er hann var á leið frá Raufarhöfn til Akureyrar, en hann stundar strandveiðar á sumrin.