Á 632. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar óskaði ráðið eftir greinargerðum frá viðbragðsaðilum, björgunarsveitum, slökkviliði, lögreglu, Rauða krossinum, HSN, þjónustumiðstöð og öðrum stofnunum Fjallabyggðar.

Lagðar voru fram greinargerðir frá eftirtöldum aðilum:
Þjónustumiðstöð Fjallabyggðar, höfnum Fjallabyggðar, slökkviliðsstjóra Fjallabyggðar, Íþróttamiðstöð Fjallabyggðar, Skálarhlíð, íbúðakjarna við Lindargötu 2, Hornbrekku, björgunarsveitinni Strákum, björgunarsveitinni Tindi, Grunn- og leikskóla Fjallabyggðar, lögreglu og aðgerðarstjórn Almannavarnarnefndar á Akureyri.

Í greinagerðum er farið yfir stöðuna sem upp kom, verkefni, skemmdir og nauðsynlegar úrbætur varðandi skipulag, samhæfingu, starfshætti og tækjabúnað.

Einnig lagt fram vinnuskjal bæjarstjóra, dags. 03.01.2020 með samantekt og tillögum að úrbótum er snúa að sveitarfélaginu.

Bæjarráð þakkar greinargóðar upplýsingar og yfirferð. Aðilar eru sammála um að aðgerðir hafi tekist vel en ljóst er að mikilvægt er að yfirfara skipulag, starfshætti og samhæfingu þjónustustofnana, viðbragðsaðila og annarra sem gegna veigamiklu hlutverki þegar almannavarnarástand skapast í sveitarfélaginu.

Bæjarráð samþykkir að skipa nýjar vettvangsstjórnir í Ólafsfirði og Siglufirði. Fela bæjarstjóra að senda bréf á Rarik, Mílu og Orkusöluna vegna Skeiðsfossvirkjunar og fara fram á útskýringar og viðeigandi úrbætur.

Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra tæknideildar að yfirfara og meta þörf fyrir varaafl í stofnarnir sveitarfélagsins og leggja fyrir bæjarráð.

Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra tæknideildar að óska eftir upplýsingum frá einstaklingum, fyrirtækjum og öðrum lögaðilum um tjón sem varð í óveðrinu sem lið í greinargerð sveitarfélagsins til átakshóps fimm ráðuneyta sem stofnaður var í kjölfar óveðurs um miðjan desember sl.