Eins og kom fram í frétt á Trölli.is í morgun var samþykkt á 764. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar tillaga um að reglulegri flöggun við stofnanir Fjallabyggðar við andlát og útfarir íbúa verði hætt frá og með 1. janúar 2023. Frá og með þeim tíma verður íslenska fánanum flaggað við stofnanir Fjallabyggðar á opinberum fánadögum.

Tillagan er til komin til að samræma hefðir innan sveitarfélagsins, en misræmi hefur verið í þeim á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar.

Trölli.is hafði samband við sr. Sigurð Ægisson sóknarprest á Siglufirði og spurði út í viðbrögð hans vegna ákvörðunar bæjarráðs Fjallabyggðar.

Sr. Sigurður Ægisson svaraði því á þessa leið:
„Það er mikil afturför ef á að slá af þennan fallega sið okkar hér í Siglufirði, að sýna þeim virðingu sem hverfa á braut, með því að draga fána í hálfa stöng við Ráðhús Fjallabyggðar. Mér fyndist nær að koma honum frekar á í Ólafsfirði líka. Við fjarlægjum ekki Hólshyrnuna þótt ekkert sambærilegt fjall sé hinum megin, eða þá að við gerum kröfu á austurbæinga að fjarlægja hina yndislegu Múlakollu, fyrst við eigum enga slíka hér vestra. Ég hvet því bæjaryfirvöld til að endurskoða þessa ákvörðun. Hún er vanhugsuð.“