Orðið bryggjugutti er líklega hálfgert skammyrði, yfir unga drengi sem hér áður fyrr eyddu heilu sumrum í að hanga niðrá bryggjum í allskyns ævintýraleikjum. Bryggjurnar heima á Siglufirði voru í rauninni lengi vel vinnusvæði fyrir fullorðið fólk, en segja má, að eftir að síldin hvarf, tókum við krakkarnir yfir allt þetta svæði og hvergi annars staðar á Íslandi var að finna jafn margar yfirgefnar bryggjur, allskyns hús og verksmiðjur.

Þetta var okkar ævintýraheimur.

ATH. Ef þið smellið á mynd í greininni er hægt að fletta stækkuðum ljósmyndunum fram og til baka. En auðvitað er skemmtilegast að skoða alla myndatexta og söguna í heild sinni.

Margar og langar bryggjur með löndunar brautarteinum og stórum síldarvinnsluplönum undir Hafnarbakkanum. Myndina tók Kristfinnur Guðjónsson á tímabilinu 1930/40.

Ég var ekki hár í loftinu þegar áköf löngun tók mig heljartökum um að fá að fara „niðrá bryggju“ og skoða nánar þann undralega síldarævintýraheim sem ég mátti bara skoða úr fjarlægð úr húsgluggunum á Hverfisgötu 27 og garðinum og túnunum þar um kring.
Amma Nunna fylgdist vel með mér alla daga og langamma Jóna Möller sat líka eins og varðhundur í eldhúsglugganum sínum við Hafnargötuna.

Fullorðna fólkið laug að okkur börnunum allskyns hræðsluáróðri um allar þær hættur sem lágu í leyni, þarna gat maður dottið í djúpar síldarslorsþrær eða í sjóinn frá slorhálum bryggjunum.

Síldarævintýralegt útsýni úr barnæsku frá Hverfisgötu 27. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Eða svo gátu Færeyskir sjómenn rænt okkur blessuðum börnum sem voguðu sér að fara um borð hjá þeim, til þess að betla af þeim bragðgott grjóthart beinakex. Sex eða sjö vetra gamall, nýfluttur í suðurbæinn komst ég loks óséður niður fyrir Hafnarbakkann og þá fékk ég að sannreyna, að sumt var satt og hættulegt og annað ekki.

En Færeysku sjóararnir í sínum ljósbláu fallegu bátum voru hins vegar allir með tölu yndislegir og þeir einu sem skildu íslensku og þeir höfðu svo gaman af því að fá okkur börnin í heimsókn. Þeir söknuðu sinna eigin barna sem biðu þeirra heima á annarri lítilli eyju lengst úti á sama stóra ballarhafi og eyjan okkar.

Nú sit ég sextíu vetra, léttklæddur úti á svölunum mínum hér heima í Svíþjóð og tel ör víðs vegar á líkama mínum og sköllóttum haus, þetta eru allt saman minningar-ör um hættulegt bryggjugutta ævintýralíf.

Siglfirskir bryggjuguttar með múkka sem líklega festist í veiðifærunum þeirra við Ríkisbryggjuna. Ljósmyndari óþekktur.

Ekkert gat haldið okkur börnunum frá því að fara „niðrá bryggju,“ ekki einu sinni svæsnar draugasögur um drauginn sem hékk hengdur í Gránufélagshúsinu stóra hræddi okkur…og ekki löggan heldur.

Því allt sem ekki má… er svo spennandi og það er svo gaman að henda grjóti ofaní skurð og líka að geta pissað, óséður, á bak við hurð.
Mamma sá það eflaust fyrir sér að villingurinn hennar myndi ekki geta stillt sig með að stelast niðrá bryggju og til öryggis kenndi hún mér að synda þegar ég var aðeins fimm vetra gamall.

Það kom sér vel, mörgum sinnum.

Gránufélagshúsið stóra við Hafnarbryggjuna. Ljósmyndari: Hallgrímur Hafliðason. (Halli Nonni)
Þetta stóra fjögra hæða timburhús var “draugahús” í ævintýraheimi barna og unglinga bæjarins og það var mikið “manndómspróf” að þora að fara einn í myrkrinu uppá 4 hæð og ganga alla leið að gamla skipslíknesinu sem var hengt á hálsinum þarna uppi. Yfirleitt voru þeir okkur eldri búnir að fara á undan og fá líkneskið í sveiflu áður en maður kom upp. Lögreglan komst að þessum leik og fjarlægði líkneskið og stóð það lengi vel í kjallaranum á lögreglustöðinni, áður en Örlygur Kristfinnsson bjargaði því til sín, suður í Síldarminjasafn.
Peter W. Tordeskjold. Alias: Draugurinn í Gránu er til sýnis á Síldarminjasafni íslands. Ljósmyndari: Örlygur Kristfinnsson
Bryggjuyfirlitsmynd. Mynd af korti í eigu Síldarminjasafns Íslands. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

„Niðrá bryggju“ er svolítið einkennilegt Siglfirskt hugtak, sem margar kynslóðir bæði mér yngri og eldri kynslóðir Siglfirska barna þekkja vel.
Því hér erum við ekki að tala um einhverja eina bryggju, heldur ALLAR bryggjurnar í bænunum og þær voru sko margar, langar, breiðar og mjóar. Sagt er að, ef maður þræddi bryggjukanta frá syðstu til nyrstu bryggju að þá yrði þetta samanlagt um og yfir sex kílómetra göngutúr. Samanlagður fermetra fjöldi er óteljandi, en hér erum við að tala um fleiri, fleiri  þúsund fermetra. Gríðarlega mikil tré mannvirki og undraheimur okkar bryggjuguttana var ekki bara ofaná þessum bryggjum, heldur líka undir þeim og þar voru til tveir heimar, sem hétu FLÓÐ og FJARA. 

Bryggjuguttar að “pilka” þorsk og ufsa á Ríkisbryggjunni. Ljósmyndari: Hallgrímur Hafliðason. (Halli Nonni)

Að veiða þorsk og ufsa við Ríkisbryggjurnar var hálfgerð sumarvinna hjá okkur bryggjuguttunum, því við gátum selt aflann í litlu gömlu Paul bræðsluverksmiðjunni og gengum síðan stoltir upp í Nýja Bíó, með pening í vösum og keyptum okkur Thóraís með súkkulaðitopp og kannski líka, ef aflinn var góður, Valash appelsín sem við sugum upp úr flöskunni með lakkrísröri sem varð svo mjúkt og gott eftir að hafa legið í þessum ljúfa safa.

Svo gat maður líka unnið sér inn aur með því að gella þorskhausa við gamla Ísafold frystihúsið og selja síðan uppskeruna í fiskbúðina hjá Jósa og Bödda.

Mér er það einnig minnisstætt að heima á Siglufirði fylgdi vorinu sterk tjörulykt, því viðhaldi á trébryggjum fylgir mikil vinna við að tjörubera allt trévikri. Snjóa leysti oft fyrst á bryggjunum og þá vorum við guttarnir stundum að spila fótbolta á stórum auðum plönum. Mamma var ekki par hrifin af því að maður kæmi heim með fullt af tjöru undir gúmmískónum. Síðan tók síldarvinnsla fullorðna fólksins yfir leiksvæðið okkar og þá fórum við krakkarnir að gera annað suðrá leirunum.

Sjá meira hér um ýmsa ævintýraleiki suðrá leirunum hér:

Horfin ævintýraheimur: Skoger, Evanger, Tordenskjold… og ég! 1. hluti

og

HORFIN ÆVINTÝRAHEIMUR: SKOGER, EVANGER, TORDENSKjOLD… OG ÉG! 2. HLUTI

Svo fór Síldin skyndilega í langt sumarfrí…

… Og þá byrjar nýtt ævintýra tímabil hjá okkur bryggjuguttunum og ekki má gleyma að margar stelpur voru líka bryggjuguttar og voru með okkur í ævintýraleikjum, í, ofaná og undir, nú yfirgefnum bryggjum, brökkum og bræðsluverksmiðjum.

Aðal tómstundaiðja okkar bryggjugutta, fyrir utan þorskveiði, var að fara í rannsóknarleiðangra og sjá hvað væri að finna inní hinum og þessum, nú yfirgefnu síldarbrökkum. Setja þar upp kaðla í rjáfur og fara í Tarzanleik, óséðir í rökkrinu. Sitja reykjandi sígarettur og vindla í Chesterfield leðursófum á síldarkóngaskrifstofunni og þykjast vera flottir mafíuforingjar, með fyrirmyndir úr bíómyndum sem við sáum í Nýja Bíó.

Okkur fannst svo sem ekkert að þessum innbrotum okkar, því flest öll þessi hús og brakkar voru yfirgefnin og eigandinn tíndur eða fluttur suður.

Sjá meira um kaðla og klifur leiki hér:

KAÐLA OG KLIFUR ÆVINTÝRA MYNDASYRPUSAGA

Að bara spássera um bryggjurnar var líka skemmtilegt og margt merkilegt þar að sjá og finna.
T.d. var það gaman að finna dauðar Hnísur sem sjómenn komu með í land og skera út skopparbolta úr brjóskinu á sporðum og hreifum.
Allir alvöru bryggjuguttar voru alltaf með góðan vasahníf, annars voru “Færeyskir hnífar” með rauðu skafti og í svörtu hulstri vinsælir líka.

Svo gat maður stundum séð stóra Hrefnu hífða uppá Hafnarbryggjuna og horfa síðan á þegar hún var skorinn í stóra bita, sem voru seldir á sama stað.

Einhverjar óljósar minningar hef ég líka um að hafa séð stóran lifandi Beinhárkarl fastan undir bryggju, sem síðan var skotinn og dregin í burtu, en ég finn engar heimildir eða myndir af þessum atburði.

Svo var alltaf eitthvað spennandi að gerast við gömlu slippstöðina.

Bryggjur, austan og sunnan við smábátahöfnina. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Að sigla undir bryggjurnar á heimatilbúnum bárujárns kajökum var vinsælt sport hjá okkur bryggjuguttunum og oft fundum við þar góðgæti, eins og rikling og átum yfir okkur og komum heim með magapínu, ef steinbíturinn var of blautur.

Alskyns siglingatæki

Allt mögulegt sem við fundum var notað sem siglingatæki og sumt flaut betur en annað….

Siglt á kassa og lofthettu frá þurrkara síló. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Suðurbæjar bryggjuguttar

ATH. Eflaust hétu mörg að þessum húsum upprunalega eitthvað annað, en í okkar barnalega ævintýraheimi fengu þau önnur nöfn.

Á þessum tveim myndu hér fyrir ofan má sjá löngu horfði leiksvæði okkar suðurbæjargutta, lengst til vinstri er “Svarti skúrinn” svokallaði, sem lengi vel var okkar aðalbækistöð að hruni komin, þar norðan við er hús sem Gústi Guðsmaður bjó í um tíma og seinna var Siggi Konn minnir mig með smíðaverkstæði þarna. Síðan kemur “Beinið” flott og mikið þriggja hæða hús sem lagðist á hliðina seinna meir í miklum stormi, en timbrið er til enn þá í geymslu hjá Síldarminjasafninu.

Þar við hliðina er síðan “Langi Gráiokkar aðalbryggjuguttabækistöð til fleiri ára. Upprunalega var hann harðlæstur, en við komumst inn gegnum opna lúgu undir brakkanum og svo var önnur lúga í sömu línu uppá loft. Þar hékk kaðall, sem við klifruðum upp og niður og komumst oftast óséðir inn og út og létum okkur hverfa undir bryggjurnar, en þar niðri var annar illa lyktandi ævintýraheimur.
Í langa Gráa var mikil kaðla- og klifurleikja heimur og þarna fundum við líka bjóð og ýmislegt fleira sem hægt var að sigla á óséðir undir bryggjunum.

Fyrir framan Langa Gráa sést í lítinn skúr sem Gvendur í Bænum átti afdrep í og létum við hann alveg eiga sig, því Gvendur var alltaf svo góður við okkur og hjálpaði okkur að lagfæra reiðhjól og skellinöðrur í öðrum skúr við íbúðarhúsið sitt uppá Laugarveg.

Guðmundur Pálsson. (Gvendur í Bænum) Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Norðan við Langa Gráa skúrinn var Ísfirðingaplanið stóra og í því húsi var lengi vel Stjáni (Kiddi) á Eyri með bátasmíðaaðstöðu minnir mig.

Í myrkrinu undir þessu stóra plani gerðust ýmis ævintýri, lyktin þarna var minnst sagt slæm, sand- og leirdrulla blanda, ásamt ýmsu sem kom úr fjölmörgum klóaklækjum sem runnur úr húsunum ofan við Hafnarbakkann.

Eitt sumarið lögðum við t.d. mikinn tíma í að byggja leynilegan pall á milli bryggjustaurana undir miðju planinu. Efniviðinn lánuðum við úr Langa Gráa og öðrum síldarbrökkum, af nógu var að taka.

Hálf hauskúpa undir bryggjum

Hauskúpa. Ljósmyndari: Hallgrímur Hafliðason. (Halli Nonni)

Bjartan og fallegan sumardag erum við bróðir minn, Siggi Tommi og Giggi suðurbæjar vinur okkar, í ævintýraleiðangri undir planinu stóra sunnan við Skafta á Nöf. Við finnum þarna selshauskúpu ofan á netahrúgu og það vantaði á hana neðri kjálkann.
Grá mergur og marflær sáust í augnatóftum og ég man að ég stakk spýtu inní annað augað og svo gogguðum við hauskúpuna uppá bryggju til þess að geta skoðað þetta betur í dagsljósi.

Skuggi/The Phantom. Mynd lánuð frá Wikipedia.

Við vinirnir lendum síðan í hörkurifrildi, þar sem ég vildi fara með hauskúpuna heim í bílskúrinn hans pabba og grafa merginn úr hausnum með skeið og búa síðan til flottan hauskúpu lampa úr þessu, líkt og ég hafði séð í teiknimyndasögunum um Skugga sem voru prentaðar þarna í götunni rétt fyrir ofan. Giggi og bróðir voru alls ekki sammála því, að ég ætlaði að eigna mér þennan fjársjóð.

Við tókum ekki eftir því í látunum að Venni Gamli stóð allt í einu við hliðina á okkur og svo segir hann sallarólegur.
Heyriði strákar, þetta er ekki selur, þetta er hauskúpa af manni….
… Nonni minn, hlauptu niðrá Löggustöð og segðu þeim að koma hingað og kíkja á þetta.

Úps! Allir okkar lampadraumar duttu aftur niður í myrkrið undir bryggjunum.

Vernharður Karlsson eða Venni Gamli eins og við guttarnir kölluðum hann og Jóhann J. Halldórsson (Hanni kokkur) Enn í dag er stígurinn frá húsinu hans Venna uppá Laugarvegi niðurá Hafnargötu kallaður Vennastígur. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Ég hljóp eins og lífið lægi á og kom lafmóður á stöðina og stundi upp þessu merkilega erindi. Löggan var síðan að leita mikið þarna undir bryggjunum af fleiri mannabeinum, en ekkert meira fannst, nema allskyns beina úrgangur úr máltíðum síldarbátana og einhver slatti sem líklega kom úr sláturhúsinu þarna rétt ofar. Einhverjum mánuðum seinna heyrum við að hauskúpan væri líklega af norskum sjómanni sem féll á milli skips og bryggju fyrir mörgum herrans árum síðan.

Sjálfur fékk ég martraðir yfir því að hafa stungið saklausan látinn norskan sjómann í augað….

Söltunarplan Skafta á Nöf og íbúðarhúsið hans hvítmálað og til hægri sést Ásgeirsbrakkinn eða Bæjarbrakkinn svokallaði sem Gústi Guðsmaður bjó í lengi vel. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Það er skemmtilegt að minnast leikja og prakkarastrika á þessu stóra leiksvæði sem bryggjurnar á Siglufirði voru, en líka að minnast þess að hafa hitt og spjallað við marga merkilega karaktera og tveir af þeim bjuggu þarna á bryggjunum. Gústa Guðsmann þarf ekkert að kynna fyrir neinum, en Skafti Stefánsson (á Nöf) og konan hans elskulega bjuggu þarna og við bryggjuguttarnir létum hans eignir alveg í friði svo lengi sem hann lifði.

Man að hann var alltaf eitthvað að dunda þarna á planinu, þótt engin kæmi síldin.

Alltaf klæddur í bláar smekkbuxur yfir slitna lopapeysu og þar utan á svartan jakkafatajakka og með blátt kastskeyti á hausnum.
Indælis karl og barngóður maður, sem alltaf spurði mann frétta af afa og ömmu.

Frá vinstri: Skafti Stefánsson og móðir hans Dýrleif Pétursdóttir, Jónína ? og Pétur Stefánsson. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Viðbótarupplýsingar frá Steingrími Kristins: “Fyrri kona Péturs var Ólöf Jónína Gunnlaugsdóttir, ættuð frá Ólafsfirði, en hún lést í febrúar 1926. Pétur og Ólöf Jónína eignuðust eina dóttur.Síðari kona Péturs var Jónína Margrét Ásmundsdóttir frá Kleif í Eyjafirði.
Pétur og Jónína Margrét eignuðust sjö börn en misstu þrjú þeirra i frumbernsku. Jónína Margrét lést í janúar 1975.
http://www.sk2102.com/450036496

Að lokum breyttist Siglufjörður í draugabæ…

… þar sem bryggjur og brakkar, brotnuðu og rotnuðu og í dag er lítið eftir, en minningin lifir á Síldarminjasafninu og í sögum og minningarmyndum margra kynslóða barna sem muna eftir spennandi ævintýrum á flottustu bryggjum Íslands.

Við Siglfirsku börnin vorum nú orðin sérfræðingar í að ganga á ónýtum fúnum bryggjum og forðuðumst að detta í sjóinn með því að taka stór skref á milli þverplankana undir bryggjuborðunum. Það tókst ekki alltaf og þá datt maður í gegnum bryggjuna og stundum reif maður sig illa á riðguðum nöglum.

Þegar kom að unglingsárum heima á Sigló, þá var maður kannski ekki lengur að leika sér sér í þessum nú stórhættulegu síldarbæjarrústum, en við vorum áfram með leynilegar bækistöðvar á hinum ýmsu stöðum og forðuðum okkur þannig undan augnaráði fullorðinna og sögur frá þeim tíma gætu orðið efni í framhaldsglæpasögu.

Allt eftir sem veggir hrundu saman, fundum við mikið af þurrkuðum kattar- og rottulíkum, sem litu út eins og Egypskar múmíur.
Þetta varð allt saman draugasögulegra með hverju árinu sem leið…

Það er gaman að minnast á sögur eins og þegar minn kæri bróðir og aðrir bryggjugutta vinir hans, tóku sig til og hentu svona kattarmúmíu inn á færibandið í Ísafoldarfrystihúsinu. Það heyrðust stöðugt ný og há öskur frá dömunum við færibandið, allt eftir því sem blessaður kötturinn færðist innar í húsið. Þetta var reyndar frekar dýrt prakkarastrik, því það þurfti að senda alla heim á meðan frystihúsið var sótthreinsað hátt og lágt.

Bæjarvinna, niðurrif og upphreinsun í draugabæ. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Lífslifandi draugur í bragganum hans Skafta á Nöf

Mér er það einnig minnistætt, að hafa sem unglingur unnið í bæjarvinnunni við það að hreinsa upp og rífa gamalt síldarævintýrisdót.

Það kom sér vel fyrirfornleifafræðing sem hét Frosti Fífill, sem var í vinnu við að bjarga síldarvinnsluminjagripum, að við fyrrverandi bryggjuguttarnir vissum allt um hvað væri að finna í þessum nú föllnu bröggum og verksmiðjum.

Ég minnist þess að hafa orðið skíthræddur við niðurrifsvinnu við braggann hjá gömlu Nöf söltunarstöðinni. Með okkur guttunum var tónlistarmaðurinn og vörubílstjórinn Sturlaugur Kristjánsson og hann er að reyna að ljúga að okkur að það sé draugur inni í fyrrverandi verbúðarhúsi síldarstúlknanna hans Skafta á Nöf. Hann manar okkur að fara inn og gá að þessu og við læðumst hljóðir inn langan dimman gang og svo allt í einum sjáum við og heyrum í gömlum karli sem situr á rúmi og er að dunda sér við að riða net.

Karlinn lítur upp og ræskir sig en segir ekkert og við hlupum út náfölir og skelkaðir. Stúlli hló mikið af okkur og svo ræddum við málin og vorum sammála um að við héldu að þessi háaldraði sjóari hefði verið löngu dauður. En greinilega ekki og honum var ekkert vel við að missa vinnuaðstöðuna sína þegar bragginn var rifinn.

Óskarsplan og Hrímnisbryggjur að hruni komnar. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Svo kom dýpkunarskipið Grettir (kringum 1980) og reif niður restina af gömlum ónýtum bryggjum og þar með hvarf það síðasta af undraheimi bryggjuguttana heima á Sigló. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Sjá meira hér um draugabæinn Sigló og niðurníðslu:

Göngutúr um heimahaga, 8 hluti, NIÐURNÍÐSLA. (35 myndir)
sksiglo.is | Greinar | 21.04.2017 | Jón Ólafur Björgvinsson | Lestrar 1544 

Að lokum…

… Verð ég enn og aftur að senda þakklætiskveðjur til Steingríms Kristinssonar, okkar eina og sanna ljósmyndasögu snillings. Fyrir að hafa tekið myndir af öllu og engu og í áratugi og safnað sínum eigin og annarra ljósmyndum í Ljósmyndasafn Siglufjarðar.

Það er með ólíkindum að geta ætíð fundið tímabils passandi ljósmyndir og myndskreytt minningasögur um atburði sem gerðust fyrir hálfri öld, sem sýna og sanna fyrir okkur hvernig LÍFIÐ Á SIGLÓ var í denn.

Systkinin, Steingrímur Kristinsson, Hulda Guðbjörg Kristinsdóttir og Jóhanna Kristinsdóttir og móðir þeirra Valborg Steingrímsdóttir. Myndin er tekin á Ljósmyndastofu Siglufjarðar hjá Kristfinni Guðjónssyni.

Höfundur samantektar og endurvinnsla ljósmynda:
Jón Ólafur Björgvinsson  og Steingrímur Kristinsson.

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.