Sækja þarf um leyfi til að brenna bálköst ef bálköstur sem á að brenna er stærri en einn rúmmetri.

Kostnaður

Leyfið kostar 11.000 kr. og skal það greitt inn á reikning embættis sýslumanns í því umdæmi sem brennan á að fara fram.

Umsókn

Í umsókninni þarf meðal annars að koma fram:

  • fyrirhuguð stærð og staðsetning bálkastar
  • hvaða efni fyrirhugað er að brenna
  • hvernig útbreiðsla elds verður takmörkuð
  • nafn og kennitala ábyrgðarmanns
  • upplýsingar um áætlaða tímasetningu brennu
  • upplýsingar um aðgang að slökkvivatni, viðbúnað leyfishafa og viðbragðsáætlun

Fylgigögn

Áður en sótt er um leyfi fyrir brennu þarf að útvega eftirfarandi gögn:

  • Starfsleyfi eða umsögn heilbrigðisnefndar þar sem fram kemur mat á umhverfislegum þáttum og hugsanlegum áhrifum á nágranna.
  • Umsögn slökkviliðs þar sem fram kemur mat á útbreiðsluhættu, hvort viðbragðsráðstafanir umsækjanda séu nægjanlegar og hvort þörf sé á öryggisvakt.
  • Staðfesting vátryggingafélags á ábyrgðartryggingu vegna brennunnar (ef þess er krafist).

Umsóknina þarf að senda til embættis sýslumanns í því umdæmi sem brennan á að fara fram. Sýslumaður fer yfir umsóknina og gefur út leyfisbréf ef öll skilyrði eru uppfyllt.

Hlutverk leyfishafa og ábyrgðarmanns

  • Leyfishafi og ábyrgðarmaður þurfa báðir að vera á staðnum þegar brennan fer fram. 
  • Leyfishafa ber að tilkynna slökkviliðsstjóra og lögreglu með að minnsta kosti 24 klukkustunda fyrirvara áður en kveikt er í brennunni. Í flestum tilfellum er nóg að gera það með tölvupósti. 
  • Ábyrgðarmaður eða fulltrúi hans á að vera á staðnum á meðan móttaka efnis fyrir bálköstinn stendur yfir. 
  • Ábyrgðarmaður á líka að sjá um hreinsun á brennusvæði fyrsta virka dag eftir að brenna er kulnuð og eigi síðar en á öðrum degi frá því að kveikt er í bálkesti.
  • Við brennu skal gæta ýtrustu varkárni og gæta þess að valda ekki óþarfa ónæði eða óþægindum.

Eldvarnareftirlit slökkviliðs sér um eftirlit með brennum, hvert í sínu umdæmi. 

Kærufrestur

Heimilt er að kæra ákvarðanir sýslumanns til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins innan þriggja mánaða frá móttöku.

Mynd/ pixabay