Sjómannadagurinn er fyrsti sunnudagurinn í júní ár hvert, nema ef hvítasunnu ber upp á þann dag, þá er hann næsti sunnudagur þar á eftir.

Hann er hátíðisdagur allra sjómanna. Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur þann 6. júní árið 1938 í Reykjavík og á Ísafirði, frá upphafi 20. aldar tíðkaðist að halda sérstakar sjómannamessur í kirkjum áður en þilskipin héldu til veiða eftir vetrarlægi, sem var yfirleitt 3. eða 4. sunnudag eftir þrettánda.

Árið 1987 var dagurinn lögskipaður frídagur sjómanna.

Í Fjallabyggð er haldið upp á sjómannadaginn í Ólafsfirði með glæsilegri dagskrá. Á Siglufirði er lagður blómsvegur á minnisvarðann um týnda og drukknaða sjómenn og sjómenn heiðraðir. Í ár eru þeir Gísli Jónsson og Hersteinn karlsson heiðraðir.

Sjómannadagurinn á Siglufirði var í eina tíð líflegur og mikið um dýrðir. Hér má sjá nokkrar myndir úr einkasafni Ásdísar Magneu Gunnlaugsdóttur og Sigurjóns Jóhannssonar skipstjóra, voru þær teknar um eða eftir 1980 af hátíðarhöldunum á Siglufirði.