Skólaakstur í Fjallabyggð fellur niður í dag vegna óveðurs. Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur jafnframt ákveðið að fella niður hefðbundna kennslu og munu nemendur mæta í fjarkennslustofur, að því er fram kemur í tilkynningu á mtr.is.

Í Grunnskóla Fjallabyggðar verður kennt eftir óveðursskipulagi.

Greint er frá því að þótt skólaakstur falli niður sé í flestum tilvikum hægt að mæta í skólann. Skólahald fer þá fram í heimabæ hvers nemanda. Tekið verður á móti nemendum frá klukkan átta en kennsla hefst klukkan hálfníu og stendur til 13.30. Lengd viðveru verður jöfn í báðum skólahúsum á óveðursdögum þó frístundadagskrá geti raskast. Þá lýkur frístund klukkan 14.30 sem þýðir að nemendur í Ólafsfirði ljúka deginum fyrr þar sem enginn skólaakstur er eftir frístund.

Lögð er áhersla á að foreldrar meti ávallt sjálfir hvort barnið hafi erindi í skólann við erfiðar aðstæður. Aðstæður eru mismunandi og börn misjafnlega í stakk búin til að fara út í vont veður. Foreldrar eru beðnir um að tilkynna forföll ef þeir treysta börnum sínum ekki til að mæta vegna veðurs eða ófærðar.

Kennarar unglingadeildar munu að morgni senda námspakka í Google Classroom fyrir nemendur í 8. til 10. bekk. Nemendur geta valið að mæta í skólann og vinna sitt efni með aðstoð kennara eða vinna óveðurspakkann heima. Opið verður fyrir skil til klukkan 16.00 og gefa skil á verkefnum mætingu í ástundun. Þeir sem ekki skila verða skráðir fjarverandi.