Elstu systur landsins eru á Siglufirði, Nanna Franklínsdóttir, sem varð 104 ára í maí í fyrra og er næstelsti Íslendingurinn, og Margrét Franklínsdóttir, sem varð 99 ára nú í janúar. Samanlagður aldur þeirra er 203 ár og átta mánuðum betur.
Þær eru úr hópi þrettán systkina frá Litla-Fjarðarhorni í Strandasýslu, dætur Andreu Jónsdóttur, sem varð 97 ára, og Franklíns Þórðarsonar, sem varð 60 ára. Níu af þrettán systkinum náðu 90 ára aldri, það elsta varð 105 ára.

Snæbjörn Gíslason á Akranesi, 102 ára, og Kristín Gísladóttir í Reykjavík, 99 ára, eru næstelstu systkinin, samtals 202 ára og sjö mánaða. Auk Snæbjörns og Kristínar náðu tvö önnur systkini 95 ára aldri, en alls voru þau átta.

Í þriðja sæti eru Stefán Þorleifsson í Neskaupstað, 104 ára, og Guðbjörg Þorleifsdóttir í Borgarnesi, 96 ára, samtals 200 ára og sex mánaða. Stefán er elstur íslenskra karla. Systkinin frá Naustahvammi í Norðfirði voru fjórtán og voru alin upp í 36 fermetra timburhúsi, án rafmagns. Níu þeirra hafa náð 90 ára aldri. Þegar móðir þeirra dó voru afkomendurnir orðnir eitt hundrað.

Heimild og mynd/ Langlífi