Mánudaginn 28. maí voru síðustu skólaslit grunnskólans að Sólgörðum eftir 75 ára skólastarf.
Á Sólgörðum hefur verið skólahald í 75 ár. Fyrst var kennt í “gamla skólanum”, en það hús var upphaflega byggt sem sumardvalarstaður fyrir siglfirsk börn á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Núverandi skólahús var tekið í notkun 1985, húsið er bjart og rúmgott og naut skólasamfélagið góðs af hitaveitu sem gerði kleift að halda opinni 16 metra langri sundlaug allt árið.

Nemendur við útskriftina
Frá árinu 2000 hefur unglingastigið fengið kennslu í Hofsósi en nú munu þau öll verða í daglegum akstri til Hofsóss.
Við skólaslitin hélt Jóhann Bjarnason skólastjóri ávarp, síðan var ávarp og kveðjuræða frá Sjöfn Guðmundsdóttur deildarstjóra, Viðar á Hraunum ávarpað samkomuna og Herdís Sæmundsdóttir afhenti nemendum miðdeildar bókina Skín við sólu Skagafjörður.
Kristín Sigurrós Einarsdóttir, umsjónarkennari, rakti 75 ára skólasögu Sólgarða, Jóhann Bjarnason sleit síðan skólanum í síðasta sinn.

Kennarar og skólastjóri
Við skólaslitin fengu nemendur vitnisburð, rósir og gjöf frá Sjöfn og Stínu. Gjöfin var minnislykil með upptöku af skólasöngnum sem hljóðritaður var í hljóðveri í vor, myndband frá árshátíðarleikriti og ljósmyndir úr skólastarfinu sl. 3 ár.
Það var vel mætt af sveitungum sem hafa alla tíð sýnt skólanum einstaka velvild.
Texti: aðsendur
Myndir: Særós Gunnlaugsdóttir