Til að tryggja greiðsluþátttöku vegna kostnaðar við almennar tannlækningar barna, fólks með geðraskanir, öryrkja og aldraðra þurfa viðkomandi að vera skráðir hjá heimilistannlækni.
Embætti landlæknis og Tannlæknafélag Íslands beina þessum skilaboðum og fleirum til landsmanna í tengslum við árlega tannverndarviku sem nú er að ljúka.
Í tilkynningu á vef Embættis landlæknis er fjallað um skráningu hjá heimilistannlækni sem hægt er að ganga frá í réttindagátt Sjúkratrygginga Íslands en tannlæknar geta einnig séð um skráninguna þegar mætt er til þeirra í bókaðan tíma.
Kostnaður vegna almennra tannlækninga barna er greiddur af Sjúkratryggingum Íslands, að frátöldu 2500 kr. komugjaldi sem greitt er einu sinni á 12 mánaða fresti.
Aukin greiðsluþátttaka hjá tilteknum hópum
Sérstök athygli er vakin á aukinni greiðsluþátttöku í kostnaði við almennar tannlækningar fólks, 18 ára og eldri, með geðraskanir. Það sama á við um langsjúka öryrkja og aldraða sem dvelja á sjúkrahúsum eða hjúkrunarheimilum. Hjá öðrum 67 ára og eldri, 60-66 ára sem njóta óskerts ellilífeyris frá Tryggingastofnun og öryrkjum, miðast greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga vegna almennra tannlækninga við 50%.