Þann 29. nóvember síðastliðinn lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögur til að styrkja réttarvernd ferðamanna. Tillögurnar taka mið af reynslu síðustu ára vegna Covid-19 faraldursins og gjaldþrota í ferðaþjónustu sem fylgdu í kjölfarið.

Breytingartillögunum er ætlað að skýra reglur um endurgreiðslu vegna niðurfellingar á flugi og bæta upplýsingaflæði til neytenda. Einnig er lagt til að bæta réttarvernd fatlaðra og hreyfihamlaðra ferðamanna með því að tryggja þeim rétt til viðeigandi aðstoðar og þjónustu.

Nánar tiltekið er lagt til að eftirlit með framkvæmd reglugerðar um réttindi flugfarþega verði hert en einnig að farþegum sem bókuðu í gegnum millilið verði gert kleift að fá endurgreitt. Þá eru lagðar til breytingar á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar um fjölþátta ferðaupplýsingaþjónustu sem miða að því að gera ferðamönnum auðveldara að nálgast upplýsingar í rauntíma um þjónustu, aðgengi, ferðamöguleika, seinkanir og niðurfelld flug. Lagt er til að fatlaðir og hreyfihamlaðir farþegar njóti viðeigandi þjónustu ef þeir þurfa að breyta um ferðamáta. Einnig er lagt til að aðstoðarmenn fatlaðra eða hreyfihamlaðra flugfarþega fljúgi endurgjaldslaust og eigi rétt á að sitja við hlið ferðamannsins ef það er raunhæft.

Þá er kveðið á um að ferðaskrifstofur skuli eiga rétt til endurgreiðslu frá þjónustuveitendum innan viku frests, þegar endurgreiðslukröfur stofnast. Þetta gerir ferðaskrifstofum aftur betur kleift að endurgreiða ferðamönnum innan áskilins tveggja vikna frests þegar þeir eiga rétt á endurgreiðslu. Tillögurnar fela einnig í sér að innborganir ferðamanna inn á pakkaferðir megi ekki nema meira en 25% af heildarverði pakkaferðarinnar nema í undantekningartilfellum og að ferðaskipuleggjendur megi ekki krefjast heildargreiðslu fyrr en 28 dögum fyrir upphaf pakkaferðarinnar.

Sé ferðamönnum boðin inneignarnóta vegna niðurfellingar ferðar er lagt til að þjónustuveitendum verði gert skylt að greina þeim frá skilmálum inneignarnótunnar og upplýsa ferðamann hvort hann eigi rétt á endurgreiðslu í stað inneignarnótu. Þá er þess krafist að inneignarnótur sem ekki eru nýttar séu sjálfkrafa endurgreiddar í lok gildistíma þeirra. Enn fremur er lagt til að bæði inneignarnótur og endurgreiðslur verði tryggðar reynist ferðaþjónustuaðili ógjaldfær. Jafnframt er lagt til að ferðamönnum verði veittar skýrar upplýsingar um réttindi sín, hvaða ferðasamsetningar teljist til pakkaferða og hver sé ábyrgur vegna vanefnda.

Tillögurnar ganga nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.